Ekki málefnalegt …

Smá hlé gert á hinu venjubundna bloggi hérna. Ég er búin að setja inn flickr widget í sidebarið. Vona að þið sjáið það. Megnið af myndunum sem eru inn þarna núna, eru teknar í Húsdýra- og fjölskyldugarðinum og sýna m.a. Gíslínu og Hauk Þór, systkinabörn mín.

Og svo líka þetta vídeó hérna.

Auglýsingar

Af menningarástandi

Ég verð ekki sú fyrsta til þess að logga mig inn á bloggsíðu mína til að leggja orð í belg um þá ályktun um menningarmál sem var samþykkt á síðasta þing Sambandi Ungra Sjálfstæðismanna. (Sjá nánar hér á bls. 15 og 16).

Ég nenni nú ekkert að hafa nákvæmlega eftir orð þeirra, kannski vegna þess að mér finnst þessi ályktun svo yfirmáta heimskuleg. Einna helst sýnist mér að þau hafi aldrei nokkrun tímann tekið eftir í íslensku- og sögutímum í menntaskóla, hvað þá í grunnskóla. Eða kannski fíla þau einsleitni og lágkúru. Þau geta þá bara skreytt veggina hjá sér með plakötum af Nylon og uppáhaldsfótboltaliðinu, og hlustað á Skítamóral. Þau geta gleymt því að sjá nokkurn tímann íslenska kvikmynd aftur og lesefnið – ja, þau eru heppin að sæmilegur rithöfundur eins og Arnaldur Indriðason sé í tísku núna. Einu sinni voru það nú Rauða serían og Birgitta H. Halldórsdóttir það vinsælasta.

Kannski er það til of miklis ætlast af fólki sem les ekkert annað en verðbréfaportfólíurnar sínar og fylgist ekki með öðru en gengi og verðbréfavísitölum.

Ha, ég pirruð út í nýfrjálshyggju? Hvernig datt ykkur það í hug?

Nammi … bækur

Ég á alveg óskaplega mikið af bókum. Ég hef ekki haft fyrir því að telja þær en tel nokkuð víst að þær séu fleiri en þúsund enda nægir mér ekki stóri bókaskápurinn minn heldur verð ég að nota efri hluta fataskápsins míns undir þær.

Það er langt í frá að ég hafi náð að lesa þetta allt saman nákvæmlega. Sú staðreynd kemur samt ekki í veg fyrir að mig langar alltaf í fleiri bækur. Þessi undarlega tilfinning sem ég finn fyrir þegar ég stíg inn í bókabúð er furðuleg. Ég fyllist óeirð og kíkt pínulítið í margar, margar bækur eins og manneskja sem gengur á milli matarkynningarborða og graðgar í sig allt sem þar er að finna. Stundum held ég að ég sé haldin bókafíkn. Ekki það að hvaða bók sem er getur satt þessa löngun mína. Mig langar t.d. afar sjaldan í innbundnar skáldsögur á íslensku. Kiljur, sérstaklega á ensku, finnst mér meira spennandi en þó ekki eins spennandi og stórar fræðslubækur fullar af myndum. Reyndar held ég að staðreyndafíknin og bókafíknin komi þar saman enda finnst mér flottar fræðibækur næstum jafn spennandi og Orlando Bloom ber að ofan.

Ég ætti kannski bara að fara að lesa.

Kosningaleiði

Fyrir manneskju sem menntaði sig sérstaklega í áróðri, þá er það frekar merkilegt hversu óskaplega mér leiðist kostningabaráttan fyrir borgar- og sveitastjórnarkosningarnar núna í lok þessa mánuðar. Baráttan hefur ekki enn þá náð hámarki sínu.

En kannski er þetta til vitnis um það hversu sjálfhverf ég er. Ég hef nefnilega takmarkaða skoðun á helstu kosningamálefnunum þar sem þau snerta mig fæst. 

Sundabrautin? Ég á bara svo lítið erindi í þann hluta höfuðborgarsvæðisins sem á að tengja með henni. Ég á ekki bíl, bý í Vesturbænum og labba í vinnuna. Ég hef bara meiri áhyggjur af sjónmengunni sem hún mun e.t.v. valda. 

Ég geri mér náttúrulega grein fyrir því að þetta er eitthvað sem örugglega yrði samgöngubót fyrir þúsundir en mér er samt sama.

Rétt eins og mér er sama um flugvöllin, hvort hann verði á sama stað eða troðið einhvers staðar annars staðar. Mér finnist innanlandsflugið að vera að einhverri risaeðlu sem er eitthvað óskilgetið afkvæmi deyjandi byggðastefnu. Ég sé alveg tilganginn með því t.d. að hafa almennilegan þjóðveg yfir Kjöl. 

Svo þegar upp er staðið, er þetta allt sama kjaftæðið, munurinn á flokkunum er bara ekki það mikill.

Það er nefnilega á þessum stundum sem mig langar að hafa verið uppi á fyrri hluta tuttugustu aldar þegar tekist var á um solid hugmyndafræði.