Eigum við að skjóta þá?

Jæja, þá ætla ég að fara ræða pólítísk málefni aftur. Og það auðvitað eitthvað eldfimt eins og hvalveiðar. En þar sem ég skrifaði þetta að megninu til annars staðar, þá gat ég alveg eins sett það hérna.

Ég hef margt að athuga við umræðuna um hvalveiðar, sérstaklega hversu huglægt umræðan virðist vera. Það helgast vísast til að þetta er tilfinningamál fyrir flesta hlutaðeigandi, hvort sem þeir eru með eða á móti. Enn fremur fljúga alhæfingarnar út um allt svo það er erfitt að henda reiður á staðreyndum, sérstaklega þar sem hvorug hliðin virðist leggja allar staðreyndir málsins á borðið.

Íslendingum mun aldrei takast að snúa almenningsálitinu varðandi hvalveiðar. Einfaldlega flestir þeir sem ekki tilheyra hvalveiðiþjóðum, álíta hvali vera gáfaðar skepnur, með vitsmuni á við manninn eða jafnvel gáfðri. Ég nefni sem dæmi: Star Trek IV The Journey Home. Ég er nokkuð viss að sú mynd og fleiri hlutir hafi mótað skoðanir flestra í Bandaríkjunum svona til að nefna eitthvað.

Svo við snúum okkur að vistfræðinni. Bæði skíðishvalir og þorsk- og ýsuseiði lifa á svifi en ég held að við mennirnir höfum meira með minnkun fiskstofnanna að gera en það að hvalirnir hafi étið allt svifið. Ég held að ofveiði hafi miklu meira að segja varðandi stærð fiskistofnanna og loftslagsbreytingar hafa meiri áhrif á fjölda svifs en át hvalanna. Lögmálið í almennri vistfræði kveður á um það að séu breytingar á einum hlekk í vistkeðjunni, hafi það áhrif á hina hlekkina. Svo að fækkun svifs hefur ekki bara áhrif á stærð fiskistofna og það að sjóflugum fækki og/eða leiti sér ætis inn til lands, heldur einnig þá ætti að hvölunum að fækka. Sama hvað hefur áhrif á fjölda svifs.

Svo er það bara staðreynd að ég hef ekki mikla trú á þeim sem eru talsmenn hvalveiða hérna heima. Kristján Loftsson hljómar alltaf eins og geðsjúklingur þegar hann talar í sjónvarpinu og er þvílíkt viðkvæmur fyrir gagnrýni að manni bara blöskrar.  (Ég held að Spaugstofan hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir sýnu Kristján ráða Ahab skipstjóra til sín). Enn fremur hefur LÍÚ alltaf hagað sér eins og eiginhagsmunasamstök af verstu gerð.

Stundum finnst mér ég botna hvorki upp né í niður í þessu öllu. Ég get séð rökin fyrir vísindaveiðinum en veiðar í atvinnuskyni munu alltaf verða of umdeildar til standa undir sér. Sama hversu mikið Japanir geta étið af hvalkjöti.

Auglýsingar