FWD:

Systir mín var að kvarta yfir því að ég væri hætt að blogga hérna. Það hefur verið einhver skriftardeifð í mér en ef að þið getið ekki fengið nóg, þá skuluð þið endilega kíkja á MySpace síðuna mína (hlekkur hérna til hliðar). Ég er stundum að setja einhverja vitleysu inn á bloggið þar.

 En reyndar hef ég eitthvað til að blogga um núna og nei, það er ekki Baugsmálið. Bendi frekar á opnuna í Mogganum eða þá tilvitnirnar í Fréttablaðinu – get ímyndað mér að þær verði fleiri. Arngrímur á eftir eitthvað fleira hnyttið, svo mikið veit ég.

Nei, mitt umfjöllunarefni í dag, er svona áframsendir tölvupóstar. Þið þekkið þá. Stundum er það brandari, stundum eru það myndir eða PowerPoint glærur um það sé „Alþjóðlega Konuvikan“ og maður eigi að senda öllum fallegum konum í vinahóp sínum þetta o.s.fv. Mér er frekar illa við svona framsenda tölvupósta þar sem ég „verð að senda póstinn 10 manns innan 10 mínútna annars lifi ég við 10 ára ógæfu“. Það er ekkert gaman að fá svoleiðið í hólfið sitt. Nóg er nú af draslinu þar fyrir. Mér finnast fyndnar myndir og hjartnæm skilboð allt í lagi en get alveg verið án þeirra.

En verstir þykja mér platpóstarnir. Ég hellti mér einhvern tímann yfir títtnefnda systur mína þegar hún áframsendi mér póst sem var að vara konur við að óprúttnir menn væru farnir að setja hestastera út í drykki hjá konum svo þær myndu missa meðvitund og nauðga þeim svo en þær sætu svo uppi með það að vera ófrjóar allt sitt líf eftir hestasterana. Ég veit ekki með ykkur en um leið og ég las þetta, hugsaði ég: „Djöfuls rugl.“ Og fór og fletti upp á einni bestu vefsíðu í heimi, snopes.com. Bara snilld þessi síða. Þarna er nefnilega hægt að fletta upp alls konar flökkusögum og götufróðleik svokölluðum til staðreyna hann. Elvis dó t.d. ekki af því að vera með garnirnar fullar af 60 (!) kg af saur eins og Jónína Ben hélt fram í Kastljósi um daginn. Sértu með mikið yfir 500 g af saur í þörmunum, er það afar kvalafullt fyrir mann. 60 kg er óhugsandi. Og þetta gat ég séð á Snopes. Snilldin er líka sú að þeir leita sér heimilda til sanna og afsanna hluti.

En ástæðan fyrir því að þetta liggur mér svo mikið á hjarta nákvæmlega núna, er það að ég fékk sendan svona áframsendan tölvupóst í dag í vinnunni frá einhverri konu sem ég veit engin deili á önnur en það að hún vinnur hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Henni hafði nefnilega dottið í hug að senda þetta á tölvupóstafangahóp sem heitir „Allir héraðsdómar“ (sendist þarf af leiðandi á alla starfsmenn héraðsdóma landsins). Ég viðurkenni það, ég hálfmissti mig, sendi konunni svar til baka um það að þetta væri plat og hún væri að skapa óþarfa álag á póstþjóna.

Ég veit ekki með ykkur en ég ætla í framtíðinni að senda öllum þeim sem senda mér svona platpóst svar til baka með hlekk á viðkomandi grein á Snopes. Kannski fer fólk aðeins að nota þessa almennu skynsemi sem maður ætlast til að það hafi.

Auglýsingar