Að hitta fólk

Í dag hitti ég fólk.

Og þá er ég ekki að tala um vinnuna þar sem ég heilsa öllum og engum. Þetta byrjaði náttúrulega í strætó þegar ég hitti hana Sigrúnu Jóns (sem ég reyndar hitti líka á þriðjudaginn þegar ég sá hana með Fanneyju frænka þar sem þær voru, eins og ég, að koma út af tónleikunum með Air).

En reyndar hafði ég mælt mér mót við fólk. Ég hitti nefnilega vinkonu mína af netinu, hana Janni og manninn hennar, hann Larry. Við hittumst fyrir utan grasgarðinn og fengum okkur að borða í Café Flóru. Mér fannst Janni rosa hugrökk þegar hún fékk sér leverpostej. Ég hitti hana Möggu sem vann með mér í póstinum þarna í Flóru og svo á meðan við vorum þarna, þá sá ég konu sem ég kannaðist ansi mikið við. Svo þegar við höfðum lokið við að borða og vorum að skoða grasagarðinn, labbar konan fram hjá mér og heilsar mér og ég heilsa og átta mig á því þegar ég stelpuna sem var að leiða hana og manninn og strákinn á eftir þeim, að þetta var hún Þóra frænka mín með fjölskylduna sína. Svona getur maður verið vitlaus.

En eins og ég segi, þá var æðislegt að hitta Janni og Larry. Við töluðum um Íslendingasögurnar því að þau eru mjög hrifin af þeim og eru bara almennt hrifin af Íslandi. Þetta er annað skiptið þeirra hérna og mér heyrðist á þeim að þeim langaði mikið að koma aftur. Þau voru sérstaklega ánægð með að hafa farið á Vestfirðina og sögðu að það hefði verið sérstök upplifun að sjá 17. júní hátíðarhöld.

Þegar ég hitti Bandaríkjamenn eins og Janni og Larry og eins og Christine vinkonu mína og fleiri bandaríska vini mína eins og Liz og Polly og suma af Könunum sem ég þekkti út í Englandi (en ekki alla), þá finnst mér illa vegið að Ameríkönum með því að segja að þeir séu upp til hópa háværir og heimskir. Reynar kenndi ég Larry og Janni að segja hálfviti og fáviti á íslensku. En þau er vel menntuð, vel lesin og víðsýnt fólk sem var afar gaman af spjalla við og finna hverju mikið þau höfðu lært um land og þjóð.

Það er nauðsynlegt fyrir sálartetrið að hitta skemmtilegt fólk af og til.

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega;
auðigur þóttumk,
er eg annan fann,
maður er manns gaman.

Auglýsingar

Að vinna hjá ríkinu

Það hefur sína kosti og galla að vinna hjá ríkinu.

Einn af göllunum er sífelldi sparnaðurinn. Ég er nokkuð viss um að gluggarnir á skrifstofunni minni verði orðnir svartir af skít að utan áður en það verður lagst í að þrífa þá.