Ættarmót 2007

Jæja, krakkar. Ég nenni svo sem ekkert að rekja hvað fram fór seinustu helgi þegar Vallafjölskyldan hélt sitt árlega ættarmót. Enda fór ég bara alltof snemma að sofa og svona og missti af fjörinu. Getur jafnvel verið að mér verði útskúfað fyrir að standa mig ekki í djamminu.

En kannski get ég bætt fyrir það með myndum. Tjékkið á flickr tenglinum hér til hliðar eða bara skoðið þetta sett hérna.

Harry Potter og brjóstahaldarar

Ég gat ekki annað en brosað út í annað þegar ég las gagnrýnina hans Árna Matthíasarsonar í Mogganum á mánudaginn um nýju Harry Potter bókina. Hann virkilega heldur að enginn hafi syrgt Sirius Black þegar hann dó í fimmtu bókinni. OK, Árni var ekki með mér og vinum mínum að lesa hana en í þeim hópi var fólk sem hætti að lesa Harry Potter vegna þess að það meikaði ekki dauðar Siriusar.

En nóg um það.

Ég var sem sagt út í Skotlandi um helgina, aðallega til þess að fá Harry Potter og lesa bókina í góðra vina hópi en ég náði að versla pínu. Nærföt aðallega. Vegna þess að það er næstum bara þess virði að borga fyrir flug til Glasgow (og lest til Edinborgar) til þess að ná í útsöluna í Marks og Spencer. Til dæmis keypti ég mér voðalega sætan fölgrænan brjóstahaldara á 3 pund sem gera 366 krónur, sá svo í einhverju blaðinu á mánudaginn auglýsingu frá Misty með brjóstahaldara sem var mjög svipaður sem kostaði 5.990 krónur (sem er bara rán og okur). Ég meina vá. Ég auðvitað veit að ég náði mér þarna í brjóstahaldara á mjög niðursettu verði en fínir og flottir brjóstahaldara í Marks og Spencer, jafnvel fyrir þær sem eru mjög brjóstgóðar, kostar svona í mesta lagi 18 pund á fullu verði. 18 pund eru svona 2.200 krónur sem er líka langa vegu frá því að vera 5.990 krónur.

Af hverju eru góðir brjóstahaldarar svona dýrir á Íslandi?

Kannski er einhver myrkur herra á bak við það.

Og svona að lokum til upplýsingar, þá er Harry Potter and the Deathly Hallows jafnvel betri á öðrum og þriðja lestri. (Er að lesa hana í annað skipti fyrir mig og er komin á 23. kafla þar en á kafla 15 í að lesa fyrir Gíslínu).

Út í búð

Ég er sérstök áhugamanneskja um góðar matvörubúðir.

Nú, hvað meina ég með því?

Mér finnst bara  ákaflega gaman að koma inn í matvörubúðir sem ég hef ekki komið í áður. T.d. í dag fór ég með mömmu í nýju Krónubúðina í Mosfellsbæ og varð afar hrifin. Hún var svo vel skipulögð, nægt vöruúrval og allar hillur og kistur fullar. Ólíkt huggulegra en t.d. Bónus út á Nesi. Mér finnst ekkert gaman að koma þangað, enda þá sjaldan sem ég þarf að gera innkaup, finn ég bara alls ekki allt sem mig vantar þar.

Að koma inn í nýju Krónubúðina minnti mig mikið á að fara í Asda út í Bretlandi. Reyndar voru fleiri deildir Asda, þar fengust föt o.fl.  Það var alltaf svo gaman að versla í matinn í Bretlandi þó svo að ég þyrfti alltaf að rogast með pokana langa vegu. Yfirleitt fór ég í Tesco Metro niður í bæ. Það var ekkert svakalega stórt Tesco en nægði yfirleitt fyrir flestum nauðsynjavörum og sitthverju ónauðsynlegu. Það var stutt á strætóstoppistöðina frá Tesco en svo þurfti maður að labba yfir næstum alla háskólalóðina til að komast í gamla góða Tyler Court frá háskólastoppistöðinni.

Stundum fórum við Romana labbandi niður Sainburys sem var rétt hjá ógeðslegu sundlauginni (kölluð svo eftir að Romana fékk eyrnasýkingu þar). Þetta var svona 10-15 mínútna labb svo það var ekkert yfirstíglegt fyrir að versla í svo flottri búð (hún var alveg geðveikt, sérstaklega frosnu tilbúnu máltíðirnar, víndeildin og bakaríið), ja, fyrir utan það að maður þurfti að labba upp Tyler Hill til að komast heim. Sú hæð var ansi skyld Hjartaáfallshæðinni í Brno.

Þannig það var bara skárra að geyma innkaupin þar til að maður fór niður í bæ sem var ansi oft og versla bara í Tesco enda var hún ódýrari og maður gat komist með vörurnar þaðan á jafnsléttu.

Svo var það litla búðin á háskólalóðinni sem gat alveg verið ágæt en maður stólaði ekki á að gera innkaupin þar. Helst keypti maður vatn og samlokur þar og kannski bjór þegar manni langaði í bjór.

Heh, allt í einu breytist þessi póstur í leyndan áróður fyrir því að selja vín í matvöruverslunum.  Reyndar er svolítið erfitt að sjá hvernig eigi að framkvæma það þar sem meirihluti afgreiðslufólk í matvörubúðum á Íslandi er langt undir lögaldri.

Velsældin er ekki öll tekin út með sældinni. 🙂