Lífið, Noregur og blogg

Ég get ekki kvartað undan lognmollu í lífi mínu eins og sakir standa. Ekki nóg með það að ég sé í fullri vinnu heldur er ég líka komin í fjarnám í Kennaraháskólanum í kennsluréttindum. Ég tek reyndar bara 5 einingar núna á haustönn en það verður sko nóg að gera – og maður þarf að vera hugmyndaríkur. Og alltaf þegar slíkar kröfur eru gerðar, verð ég hryllilega andlaus. Ég á t.d. að skila Power point fyrirlestri sem á að vera eins og stuttur fyrirlestur fyrir kennslustund, eftir tæpan mánuð og mér dettur ekkert í hug.

Svo er nóg að gera fyrir utan það. Ég er að fara í fjögra daga námsferð til Noregs í næstu viku með vinnunni, ferðin er á vegum Dómstólaráðs. Ég veit reyndar voðalega lítið hvað við verðum að gera þarna – dagskráin er alls ekkert þétt skipuð. Eitthvað á föstudeginum og laugardeginum en þar sem við komum snemma á fimmtudaginn og förum seint á sunnudaginn, höfum við ansi rúman tíma til að gera hitt og þetta.

Svo ég snúi mér að einhverju öðru en sjálfri mér.

Ég kíkti aðeins í nýjasta Mannlífið (þessu með skipstjóranum sem bjargaði flóttamönnunum í Miðjarðarhafinu) og þá sérstaklega greinina með bestu og verstu bloggara landsins og mikið var ég sammála álitsgjöfunum þar eða svona að mestu leyti.

Hef kannski ekki alveg alltaf húmor fyrir Mengellu (sem var #1) en það er mitt vandamál. Stebbi Páls er jafn góður og nafni hans Fr. á moggablogginu er leiðinlegur. Enda var stebbbifr valinn versti bloggarinn og honum er best lýst í þessari færslu Hnakkusar (sem var auðvitað einn af þeim bestu). Og svo var Ármann Jakobs á listanum sem mér persónulega finnst vera besti bloggarinn nefndur í greininni (þó svo hann kalli sig ekki bloggara). 😀

Auglýsingar