Af tímamótum og öðrum breytingum

Nú er maður víst orðinn 29 ára. Einu sinni gengu margir brandarar út á það að konur væru 29 ára í mörg ár. Eftir að hafa verið 29 ára í einn dag, hef ég enn ekki uppgötvað hvað sé spes að vera 29 ára.

Enníveis, það eru ein tímamót. Hin eru náttúrulega yfirvofandi flutningar til Akureyrar sem munu eiga sér stað í ágúst. Það kom upp úr dúrnum þegar ég fékk að líta á tilvonandi íverustað minn næsta vetur að íslenska fyrirbærið með að ef maður þekkir mann sem þekkir mann, þá er maður búinn að dekka alla Íslenda, virðist ennþá vera við lýði. Þannig er farið með hjónakornin sem eru leigusalarnir mínir að hann er ættaður úr Ölfusinu og hún er Vopnfirðingur.

Svo er maður orðin byrði á heilbrigðiskerfinu. Ef maður æðir til læknis út af pínulitlum sjóntruflunum, þá endar maður á því að fara í alveg billjón rannsóknir – rannsóknarstofan í blóðmeinafræði hlýtur að hafa fengið svona ca. tvo lítra af blóði úr mér. Út úr þessu og þá sérstaklega frekar sársaukafullir mænustungu, kom sú niðurstaða að það er alltof mikill þrýstingur á heila- og mænuvökvanum í mér. Þetta er eitthvað sem hefur ekkert heiti á íslensku en er kallað Idiopathic intracranial hypertension. Orsakirnar eru nokkuð óljósar en ég er komin á lyf og mér hefur verið ráðlagt að létta mig þar sem fólk getur orðið blint í alvarlegustu tilfellunum af IIH. Svo er það að það er skynsamlegt í alla staði að létta sig.

Vil svo að lokum benda á að ég hef uppfært flickrið mitt (hlekkurinn er hér á stikunni til vinstri) með myndum sem ég tók á hringferðinni sem ég fór með mömmu og svo Gíslínu yngri líka í seinustu viku.

Auglýsingar

Whiskey Tango Foxtrot

Aðalástæðan fyrir að ég skrifa þessa bloggfærslu, er vegna þess að ég hef flokk tilbúin. En ég verð að spyrja hvað sé eiginlega í gangi ef maður má trúa þessari frétt? Ef það er ekki búið að losa sig við hvalkjötið frá því fyrir rúmu ári síðan, til hvers á þá að fara að veiða aftur núna?

Erum við kannski föst í vísindaskáldsögu og kjarninn er sá að hvalir eru erkióvinir Kristjáns Loftssonar og hann verður að sigra þá? Hélt reyndar að bókin sem hann Hermann Melville skrifaði, hafi uppfyllt þörfina fyrir slíkt.

Ekki getur verið að kallinn græði á því að borga kæligeymslur undir mörg tonn af kjöti til lengdar. Nema við höfum öll skriðið í gegnum kanínuholuna og hið einfalda lögmál um framboð og eftirspurn gildir ekki lengur.

Ég er bara ekki alveg að ná þessu.