Barnalegt

Ef það væri eitthvað eitt sem ég ætti að segja um Akureyri, þá myndi ég segja að hér væri mikið af börnum. Las á forsíðu Moggans áðan (var úti í búð) að fæðingartíðnin á meginlandi Evrópu væri orðin ískyggilega lág. Þeir ættu að fá Akureyringa í málið.

Annars var verið að skíra litlu nágranna mína í gær og ber þau hin myndarlegustu nöfn enda hin myndarlegustu börn.

Og í frekari barnafréttum, þá átti hún Heba, vinkona mín, stelpu á afmælisdaginn sinn, núna bara á föstudaginn. Ekki er það barn akureyskt en Íslendingar eru nú frekar frjósamir yfir höfuð. Meira en tíunda hver kona í mínum aldurshópi (í kringum þrítugt) átti barn á síðasta ári.

Mér líður bara bærilega hérna annars nema hvað ég er farin að fá undarlega slæma drauma. Eins og bara núna í nótt þegar mig dreymdi að ég væri með allri Vallafjölskyldunni í rútuferð (og ég var að passa einhverja hunda en það kemur engum á óvart) en svo komst rútan ekki áfram vegna þess að það var komið eldgos í Ingólfsfjallinu og ég vaknaði við það þegar öskunni fór að rigna yfir rútuna. Og það hafa verið fleiri svona heimsendadraumar. Sem betur fer efast ég um að ég sé berdreymin.

Auglýsingar

Maður er manns gaman

Ég fékk heimsókn í gær og það var æði. Hún Ásta Stefánsdóttir sem vann með mér í Héraðsdómi var stödd hér norðan heiða og kíkti til mín í kaffi.

Réttara sagt gerði ég hana að tilraunadýri þar sem ég hafði ekki hellt upp á kaffi. Hún systir mín lét mig hafa þessa líka forláta expresso könnu svo ég prófaði hvort ég gæti gert drekkandi kaffi úr henni. Það virtist hafa tekist hjá mér, allavega drakk Ásta tvo bolla.

Svo fengum við okkur göngutúr niður í bæ og vorum aðallega í því að flækjast fyrir bílunum sem voru á rúntinum.

Ásta fór frá mér rétt fyrir miðnætti en ég gat bara alls ekki farið að sofa þar sem ég var eiginlega á kaffíntrippi. Sofnaði svo seint og um síðar meir og var ein af tíu Íslendingum sem horfði ekki á leikinn í morgun. Ekki að það hefði breytt neinu og svo er meira en lítið flott að vinna silfur.

Það var alveg ágætis veður hér á Akureyri í dag og ég fór í sund. Ég hef ekki komið í sundlaug Akureyrar í mörg mörg ár – mig grunar ekki síðan einhvern tímann á níunda áratugnum. Held að hún hafi tekið einhverjum breytingum en það var fínt að stinga sér til sunds þarna og fara svo og slappa af í heitu pottunum. Held meira að segja að ég hafi orðið útitekin en ég var þó ekki eins og einn gaur þarna sem virtist álíta að hann væri á frönsku rívíerunni eða eitthvað. Mjög ástríðufullur sóldýrkandi þar á ferð.

Með dót og drasl á Akureyri

Eins og ég sagði í síðustu færslu, ég er alltaf að skilja betur og betur af hverju foreldrar mínir héldu sig á sömu þúfunni lengi, lengi. Mikið djöfuls puð er þetta.

Ferðin norður í gær gekk vonum framar og það gekk líka vel að afferma bílinn. Toyotan stóð sig mjög vel sem flutningabíll enda var afar vel raðað í hana þökk sé systur minni og mági. Ég hef svo verið að koma mér fyrir bæði í gær og í dag. Verslaði svolítið í dag en alls ekkert allt sem mig vantar. En ég get sagt ykkur að það er fullt af búðum hérna á Akureyri. Það er sko hægt að versla ýmislegt um allan bæ.

Núna er ég með stofuna mína fulla af hlutum sem á eftir að klára að koma saman. Næstum búin að setja saman sjónvarpsskápinn, ég á bara eftir að fá lánað stjörnuskrúfjárn hjá þeim á efri hæðinni til að festa hjólin undir hann og svo er að tengja sjónvarpið og DVD spilarann og þá er það allt komið. Svo keypti ég skrifborðsstól en ég veit ekki alveg hvað ég á að gera vegna þess að ég sé ekki alveg hvernig hjólin eiga að koma undir. Það er nefnilega eins og leiðbeiningarnar geri ráð fyrir hjólin séu áföst á fætinum. En þau eru það ekki og það er enginn skrúfgangur svo ekki á að skrúfa þau í fótinn. Kannski ég verði bara að hringja í Rúmfó og kvarta eða eitthvað.

Annars er íbúðin sæt og fín og voða björt. Svona fyrir utan það að ég vil hafa dregið niður í stofunni en NB ég hef alið næstum allan minn aldur á þriðju hæð og er ekki alveg búin að venja þessu að hafa fólk gangandi fram hjá glugganum mínum.

Bókafíkill flytur

Ég er alltaf farin að skilja betur og betur hvers vegna þau gömlu héldu sig á sömu þúfunni þrátt fyrir að mér þætti það alveg ægilega leiðinlegt þegar ég var ellefu ára eða svo. Það er nefnilega svo ótrúlega leiðinlegt að pakka.

Þegar ég fór til Englands, varð ég að skera svo við nögl þar sem ég tók með mér, að það var ekkert flóknara eða meira en að pakka fyrir utanlandsferð. (Allavega svona í minningunni).

Svo stend ég frammi fyrir því að koma öllu draslinu í bílinn minn sem er ekki beint gerður fyrir flutninga. Úff, úff. Og samt sér ekki högg á vatni með bækurnar mínar t.d. Mér dettur nefnilega ekki í hug að taka þær allar með mér, svona með tilliti til þess að kjallaraíbúðin sem ég mun búa í Akureyri, er ekki sérstaklega stór. Ég er heldur ekki viss um hvað ég ætti að gera við megnið af þeim, sérstaklega þar sem ég á margar bækur sem ég hef varla litið í. Stundum óska ég þess að BookCrossing væri stærra fyrirbæri á Íslandi eða kannski hef ég bara ekki komið á staðina þar sem það væri heppilegt að skilja bók eftir í þeim tilgangi að einhvern annar taki hana upp og lesi. Þetta er örugglega vegna þess hversu dýrar bækur eru á Íslandi, allavega þær sem koma út á íslensku.

Svo hef ég pínu áhyggjur af því að búa í náinni göngufjarlægð frá Eymundsson og svo líka fornbókabúð þarna á Akureyri.