Menntun er skemmtun

Ég get ekki kvartað undan því að hafa ekki nóg að gera en mér finnst þetta bara skemmtilegt. Ég er samt alls ekki búin að finna rétta jafnvægið. En maður er líka tiltölulega nýr í þessu þannig að það er viðbúið. Og það örlar alltaf svolítið á krökkunum, þetta eru klárir krakkar.

Um seinustu helgi fór ég í haustferð með starfmannafélaginu í Bárðardalinn þar sem skoðaðir voru fossar og fleira. Það var mjög gaman, þið getið kíkt á myndirnir á flickrinu.

Svo er ég að fara á ráðstefnu á morgun sem hefur yfirskriftina „Samræða skólastiganna“ eða eitthvað svoleiðis. Það er ansi þétt dagskrá svo ég vona að þetta verði allt mjög áhugavert. Maður skyldi ætla það með tilkomu nýju laganna fyrir öll skólastigin. Að koma því öllu í framkvæmd á eftir að verða áhugavert og ég held að ég verði ekki undanskilin í því öllu saman.

Auglýsingar

Enn á lífi

Ég vildi bara deila með ykkur að ég lifði af fyrsta kennsludaginn. Ég var alls enginn afburðakennari í dag og ég verð örugglega hundrað ár að læra nöfnin á öllum krökkunum eða kannski níutíu, eitt nafn á ári því að ég kenni níutíu krökkum. Fínir krakkar þó.

Það verða örugglega einhverjar sögur til segja frá seinna.

Vildi líka deila með ykkur þessu myndbandi eða auglýsingu réttara sagt. Ég held að ein af monsunum mínum sé ennþá til.

Bókatíðindi

Ég þyrfti að koma mér upp reglulegri áminningu um að uppfæra þetta blessaða blogg. Þó stundum mér finnist ég ekkert hafa að segja þannig séð. Ég hef bara verið á kafi í undirbúningi fyrir kennsluna og svona.

Reyndar brá ég mér til Reykjavíkur um síðustu helgi til að kíkja á litlu stelpuna hennar Hebu sem er svakalega sæt og fín. Ég tók meira að segja myndir en þarf að muna að hlaða þeim inn.

Annars þegar ég hef ekki verið á kafi að undirbúa sögukennsluna, þá hef ég verið að lesa stórskemmtilegar bækur í bókaflokki sem heitir Temeraire. Þeir sem hafa smá þekkingu í listasögu, þekkja mynd Turners, The Fighting Temeraire. Temeraire í bókunum er hinsvegar dreki en hann berst í Napóleonstyrjöldunum. Eiginlega eru bæknurnar sögulegar skáldsögur með drekum og það verður að segja eins og er, höfundurinn er það fær að það gengur fullkomlega upp.

Ég var eiginlega að gefast upp vegna þess að ég hafði eiginlega ekki lesið góða bók í langan tíma áður ég byrjaði að lesa Temeraire. Sumt var nú sjálfri mér að kenna eins og lesa Twilight fjórleikinn (sem verður nú víst gefin út í íslenskri þýðingu). En ég reyndi til dæmis að lesa Laxveiðar í Jemen sem hafði fengið góða dóma og hún var hundleiðinleg. Það er ekkert gaman að lesa hundleiðinlegar bækur.

Um leið og ég skrifaði þetta, fékk ég óstjórnlega löngun til að lesa Elísarbækurnar. Verð að muna eftir þeim næst þegar ég á leið um Amtsbókasafnið.