Það er gott að fá mömmu sína

Mamma gamla kom til mín á laugardaginn svona rétt þegar ég hafði lokið við að troða mig út eins  og grís á jólahlaðborði starfmannafélags Menntaskólans á Akureyri.

Hún skildi nú ekkert í því hvað ég hefði verið að tala um að fá hana til að þrífa og svona þar sem henni fannst allt spikk og span hjá mér. Ég sem skúraði bara smá kvöldið áður en hún kom. En hún straujaði fyrir mig sem var æði.

Við fórum í leikhús á laugardaginn og sáum Músagildruna sem var fínt. Verð að fara meira í leikhús hérna á Akureyri. Svo á sunnudeginum eyddum við smá pening og skoðuðum okkur um í búðum á Akureyri. Við gerðumst líka menningalegar og komum við á listasafni Akureyrar. Fórum svo í Jólagarðinn sem var ansi troðinn af fólki en enduðum svo að troða okkur út af kökum á kaffihlaðborði í Kaffi Vin sem er við Hrafnagil.

Ég þurfti nú eitthvað að þykjast að vinna í gærkvöldi svo við héldum okkur heima og svo var mamma bara að dingla sér hérna hjá mér í dag á meðan ég var að kenna. Ég kom heim í þennan fína hádegismat og leyfði mér meira að segja að fá mér kríu svona út af því að ég gat verið viss um að móðir mín myndi nú pikka í mig ef ég væri líkleg til að sofa yfir mig. Svo þegar ég var búin að kenna, kom ég heim og við fórum aðeins í bæinn. Svona til þess að hún gæti eytt pening í myndlist. Fékk hana til að kaupa ofsalega fallegt grafíkverk eftir Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur.

Þá var haldið heim á leið til fá sér í gogginn áður en ég myndi senda kellu til Reykjavíkur aftur. Þangað er hún víst komin heil og höldnu og innan við tvær vikur þangað til að ég sé hana aftur þegar ég fer til Reykjavíkur í jólafríinu.

Ég er farin að telja niður þó svo ég eigi eftir að gera svo ótal margt. Klára að fara yfir ritgerðir og kaupa jólagjafir og svona. Gef öllum bara í sund á Akureyri og gjafakort upp á ís í Brynju. Þá hlýtur að verða stöðugur straumur af fólki hingað.

Auglýsingar

Stöðugreining

Það er orðið ansi langt síðan að ég uppfærði hérna. Ég ber því við að ég er búin að vera hryllilega upptekin við hluti sem eru ekki í frásögur færandi.

Það er búið að vera nóg af snjó hérna á Akureyri þó svo að hann hafi stundum tekið upp – svona inn á milli. En ég hef svo sem varla gefið því gaum nema þau fáu skipti sem ég hef ætlað að nota bílinn og þurft að skafa af honum. Ég er bara búin að vera hræðilega upptekin í vinnunni. Jafnvel þegar ég fékk frí um daginn og skrapp til Reykjavíkur, þá var ég upptekin þar líka. Ég varð bara vinsælasta manneskjan í heiminum og hitti stóran hluta af vinum mínum. Það var nú reyndar voðaljúft.

Núna situr maður með sveittan skallann og fer yfir ritgerðir hjá krökkunum sem eru hjá mér í menningarsögu. U.þ.b. hálfnuð með þau sem vonandi þýðir það að ég get hent í þau ritgerðnum fyrir jól.

Svo ætlar mamma gamla að heiðra mig með nærveru sinni um helgina og þrífa og taka til.

Ég þyrfti nú að verða mér út i um jólaskraut. Svona til að lífga upp á pleisið.