Á leiðarenda

Auðvitað er Ísland kalt og blautt. Það er kannski bara svolítið hressandi eftir allan rakann og hitann í Japan.

Ég held að ég þurfi núna að fara í svona aðlögun eins og litlu börnin fara í þegar þau byrja á leikskóla. Aðlögun að daglega lífinu á Íslandi. Vegna þess að ég sit hérna og langar bara mest af öllu að getað hoppað upp í lest til að fara að skoða hof eða fara í onsen.

Mér finnst t.d. allt voða lítið núna. Kaupmannahöfn er á stærð við Hveragerði … eða það fannst mér þegar við flugum yfir Kaupmannahöfn í gær. Og hvar er allt fólkið? Mér fannst t.d. ekkert fólk á Kastrup og Leifsstöð var eins og eyðimörk (reyndar var flugið mitt eina flugið sem var að koma á þeim tíma akkúrat).

Á sunnudagskvöldið fórum við Elín í onsen. Meiri hlutanum af sunnudeginum var eytt í svefn þar sem við vorum fram undir morgun í karaoke boxi að syngja okkur raddlaus. Svo hefðum við alveg mátt drekka minna shochu (shochu er brennt japanskt áfengi). En ég ætlaði að tala um onsen. Onsen eru heitar laugar en í Japan hefur myndast ákveðin menning í kringum það að fara í onsen. Og svo eru oft heilt spa-dæmi kringum onsenin. Við fórum t.d. í svettherbergi áður en við fórum svo í eiginlega onsenið. Og það er ekki bara ein laug heldur margar litlar laugar, bæði úti og inni.

Á mánudaginn í frekar miklum hita, brugðum við okkur í Yasukuni Jinja sem er hof í Tokyo tileinkað þeim sem hafa fallið í stríði fyrir Japan frá Meiji tímabilinu. Samkvæmt shinto eru kami eða andar þeirra þarna í hofinu.

Yasukuni Jinja er umdeilt fyrir margar sakir, m.a. eru dæmdir stríðsglæpamenn úr seinni heimsstyrjöldinni heiðraðir þarna. Svo er þarna safn sem segir sögu japanskra stríða síðan frá Meiji tímabilinu og já, við skulum segja að þeirra frásögn af þátttöku Japana í seinni heimsstyrjöldin er frá afar áhugaverðu sjónarhorni svo meira sé ekki sagt.

Það er enginn vafi á því að mig langar til Japan aftur þrátt fyrir að ég var næstum heilan sólarhring samfleytt á ferðalagi til að komast heim. Þetta er land mikilla andstæðna – framandi og kunnugulegt í senn og á margan hátt best lýst í þessari mynd:

Doreamon & Buddha

Japan í hnotskurn

Mér finnst nefnilega Japan togast á milli þess að vera andlegt (Búddastytturnar) og þess að vera materalískt (Doreamon styttan)

Auglýsingar

Hof og önnur mannleg stórvirki

Mér tókst að láta jarðskjálfta upp á 6.5 framhjá mér fara áðan. Elín fann hann hinsvegar.

En slíkt eru nú barnavíprur við hliðina á því sem átti sér stað í Noregi. Hvernig getur einhver hatað annað fólk svo mikið?

Manni verður náttúrulega umhugsað um það þegar maður hefur verið að upplifa hversu stórkostlega, fallega og undarlega hluti mannkynið getur áorkað.

Kyoto var hreint útsagt stórkostleg, þrátt fyrir að hafa verið ansi blaut á meðan við vorum þar. Kannski var það þess vegna sem við vorum frekar temilegar í því að skoða hofin. Það er nefnilega ansi mörg falleg og fræg hof í Kyoto en við lætum okkur nægja að sjá Kiyomizu-dera, Kodai-ji og Ginkaku-ji. Held reyndar að ég geti lifað lengi á þeim heimsóknum.

Það er eitthvað við þessi búddhahof sem mér finnst alveg magnað, einhver innri ró sem fyllir mann. Án þess að telja að þarna séu einhver trúarleg áhrif í gangi, þá held ég að þarna séu einhvers konar fullkomið samræmi eða harmónía milli bygginga og umhverfis.

Það var líka rosalega gaman að sjá Gion hverfið í Kyoto þar sem áður menn komu til að eiga samneyti við geishur en í dag eru ótölulegur fjöldi næturklúbba.

Eftir að við komum „heim“ til Saitama, höfum við brallað ýmislegt. T.d. farið í karaoke (ætlum aftur í kvöld). Ég verð að segja að mér finnst alveg rosalega gaman í karaoke hérna í Japan. Það er eitthvað svo óbeislað við það hérna, þetta gengur ekki út á að þykjast vera eitthvað heldur bara að syngja og engu skiptir hvort maður syngur illa eða vel. Það hjálpar líka að maður fer yfirleitt í svona karaoke box þar sem maður fær einkaherbergi með vinum sínum og er ekki beint að troða sér upp á ókunnuga.

Svo er ég búin að fá aðeins meiri innsýn í verslunargeðveikina í Tokyo. Fór til Akihabara sem er m.a. raftækjahimnaríki. Keypti reyndar ekki neitt. Í gær fórum við Elín til Ikebukoro sem er svolítið „á spítti“ og ég náði að versla svolítið þar. M.a. í hinni alræmdu Tokyu Hands sem er búð með allt sem þú vissir ekki að þú þurftir. Og þar er Nekobukuro eða kattahúsið þar sem þú getur, gegn gjaldi, farið og klappað kisum.

Vona að fjölskyldan hafi það gott á ættarmóti.

Stuttir LAN-kaplar og brjóstin á vitlausum stað

Núna er ég komin til Kyoto og er búin að fara í spa. Veit ekki hvort þetta telst sem alvöru onsen þar sem þetta tilheyrir hótelinu sem við erum á en afslappandi var það. Þarna fer maður í svona heita laug (laugar) og sauna. Þetta gerir maður nakin enda er þessu baði kynjaskipt. Reyndar þarf maður að þvo sér vel fyrst eftir kúnstarinnar reglum en mér fannst þetta bað æði. Svo er vatnið frábært fyrir húðina sem er svolítið annað en heita pottarnir í sundlaugunum heima. Hótelið sem við erum á er reyndar afbragðshótel fyrir utan að LAN-kapallinn er alltof stuttur. Já, við kvörtum undan of stuttum LAN-köplum.

Til þess að komast til Kyoto frá Tokyo, er hefðbundið að taka shinkanzen, það er að segja hraðlestina. Það er reyndar frekar dýr en tilltölulega þægilegt þó svo að við þurftum fyrst að fara í vitlausa átt inn í Tokyo til að taka lestina frá Shinagawa. En hvað var það annað en afskökun til að nota Yamanote línuna. 😉

Ég er búin að bralla mikið undanfarna daga en einnig slappa af. Þó að maður eigi nú að reyna að nota tímann þegar maður er svona í útlöndum, getur maður tekið því rólega. Maður sparar líka pening á því þar sem Japan er EKKI ódýrt land.

Dýrtíðin stoppaði okkur reyndar ekki í því að skoða almennilega í búðir í gær. Ég og Elín mæltum okkur mót við Marc vin hennar í Shinjuku því við ætluðum m.a. að sjá nýju Harry Potter myndina (það ætti engum að koma á óvart að ég og Elín höfum brugðið okkur á Harry Potter). Við byrjuðum það að kíkja í búðir með því að skoða snyrtivörudeildina í Isetan. Isetan er rosalega og ég meina rosalega fínt verslunarhús. Elín keypti sér maskara við Lancome borðið og við fengum þá flottustu þjónustu sem ég hef fengið við að kaupa snyrtivörur. Við vorum látnar setjast við borðið, prófa eitthvað andlitsvatn og svo var hlaðið á okkur prufum sem var vandlega pakkað inn og settar í poka.

Vestrænar konur af stærri gerðinni gera ekki mikil fatainnkaup í Japan. Japanskar konur eru almennt séð ekki mikið hærri en 1.60m á hæð og frekar grannvaxnar. Svo eru hlutföllin á skrokknum önnur. Elín segir að brjóstin á henni séu á vitlausum stað í þessu landi. Þess vegna gengur maður í gegnum fatabúðirnar og dáist að sætu flíkunum en dreymir ekki einu sinni um að það sé til í manns stærð.

Aftur á móti var stuð að fara með Marc í gegnum karladeildirnar. Marui er ein af stærri búðunum í Tokyo og þar er ótrúlega hip og kúl karladeild (margir ungir japanskir karlmenn eru svaka gæjar og leggja rosalega mikið upp úr útlitinu) og þar sem Marc er með svolitla fatadellu, var þetta ótrúlega skemmtilegt. Enda kemst hann í japönsk karlaföt þar sem hann er grannur þó svo að hann sé svolítið hávaxnari en japanskir karlmenn eru almennt.

Eftir að hafa kíkt í bókabúð sem var með ágætt úrval af bókum á ensku (og þar sem ég fékk tímarít um skauta!!!), vorum við eitthvað aðframkomin af hita og enduðum að fá okkur frappocino á Starbucks þar sem við enduðum á tjattinu við tvær japanskar stelpur sem voru báðar ansi góðar í ensku (enda höfðu þær báðar búið annars staðar en í Japan). Japanir tala alls ekki mikla ensku upp til hópa og þegar maður er ekki sleipur í japönsku sjálfur, fara samskiptin við innfædda fram með svipbrigðum og höfuðhneigingum.

Svo var það Harajuku sem var kitsch og skrítið en kannski ekki eins kitsch og skrítið og ég hélt að það yrði. Maður sá alveg stelpur uppábúnar í fullum Lolita-skrúða og svona en meirihlutinn af fólkinu var ekki undarlegri til fara en gerist og gengur.

Við fengum okkur mat á tælenskum stað og ég fékk mér krabba sem var rosalega góður en alltof mikil vinna við að fá kjötinu úr skelinni. Elín og Marc sem fengu sér mun „auðveldari“ mat, vorkenndu mér svolítið.

Áður en við fórum í bíóið, skruppum við í spilasal því Marc langaði svo í einhvern trommuleik þar. Ég prófaði hann og þetta var mjög skemmtilegur leikur þó að ég sökkaði í honum.

Í bíóinu hittum við íslenskan strák sem ég meira að segja kannaðist við því hann var með mér í MH. Heimurinn er stundum ekkert rosalega stór.

Harry Potter var rosaleg og ég grenjaði sko alveg á sömu stöðunum sem ég grenjaði yfir þegar ég las bókina.

Á leiðinni heim var einhver galsi í okkur og ég held að ég og Elín höfum náð að hneyksla einhverja Japani með því að hlæja tryllingslega að þeirri yfirlýsingu Marcs að Skyrgámur væri franskur. Já, við ræðum íslenska jólasveina þegar við erum að taka lestina heim á kvöldin.

En núna sit ég afslöppuð á hótelherbergi í Kyoto tilbúin í að fara að skoða tonn af hofum og svoleiðis á morgun svo lengi sem það rigni ekki eldi og brennisteini. (Þeir voru hræddir við einhvern hitabeltisstorm sem átti að ganga yfir Japan).

Japönsk hughrif

Á þessari stundu veit ég ekki hvernig ferðasagan mín á eftir að vera nema ég get sagt að það var heitt og rakt og ég var alltaf að dotta í lestinni. Reyndar er ég búin að upplifa ýmislegt. Síðastliðna þrjá daga hef ég verið að fara inn í Tokyo að skoða ýmislegt þar. Hef því miður verið afskaplega ódugleg að taka myndir en kannski kemur það. Vandamálið er kannski að ég veit ekki alveg hvað ég á að horfa á því hið sjónræna áreiti er svo mikið. Og nota bene, í gærkvöldi þegar við vorum að hlaupa í gegnum Shinjuku, var nú ekki kveikt á hverju auglýsingaspjaldi eða kastara. Það er nefnilega verið að spara rafmagn í Japan og þar af leiðinni hin rómaða ljósadýrð Tokyo ekki söm við sig.

Ég skoðaði Edo-Tokyo safnið sem er ansi merkilegt og vel heppnað og svo heimsótti ég National Art Center í Tokyo en þar var sýning á verkum impressjónista og póst-impressjónista. Alveg týpískt af mér að fara að skoða vestræna list í Japan.

Í gærkvöldi var ég á rosalega fínu hefðbundnu japönsku veitingahúsi. Sem betur fer þurftum við ekki að krjúpa við borðið (það var svona gryfja fyrir fæturnar undir borðinu). En já, þarna var boðið upp á ýmislegt eins og steiktan kjálka af túnfiski sem lyktaði alveg hrikalega en var frekar góður á bragðið. Þá var líka boðið upp á sashimi og ég komst að því að mér þykir fiskur sem heitir buri á japönsku alveg ferlega góður sem sashimi. En ég held að mér hafi fundist matcha aisu kurimu best, þ.e.a.s. ís með bragði af grænu tei.

Annars held ég að mér finnist einna skemmtilegast hér í Japan að skoða fólk. Ekki endilega vegna þess hve mér þykir Japanir furðulegir heldur vegna þess að það eru alltaf einhverjir sem minna mig á fólk heima. Mamma á t.d. sér marga japanska tvífara.

Disney blöðrur

Þotuþreytan er enn að birtast þó svo ég sé nú búin nokkrun veginn að laga mig að japönskum tíma. Vandamálið er að magann langar alltaf í mat um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma sem er mið nótt að japönskum tíma. Hef reyndar lítið látið það eftir honum. Samt hryllilega fyndið.

Þeir sem hafa kíkt á flickrið mitt síðan í gær, hafa örugglega séð að ég og Elín brugðum okkur í Disneyland í gær. Ja, reyndar í Tokyo DisneySea því það eru tveir Disneygarðar þarna. Við gistum líka á hóteli þarna á Disney resortinu, fínasta hótelið sem ég hef hingað til gist á.

Enda sátum við í morgunmat þarna þegar þessi jarðskjálfti reið yfir. Við vorum ansi langt frá upptökunum en hann fannst samt. Kannski vegna þess að Disneydæmið er byggt á landfyllingu. Þessi jarðskjálfti var svo lítið eins og lenda í öldugangi, þetta var ekki svona högg eins og maður finnur heima. Allir héldu samt ró sinni.

Allavega við skemmtum okkur ágætlega þegar við vorum komnar af hótelinu. Disneygarðar eru frekar flottir bara til að skoða og það var frekar gaman að fara í þau tæki sem við fórum í. Það var eitt stykki rússíbani, Indiana Jones tæki sem er „hræðilega“ skemmtilegt (enda er röðin í það frekar löng) og svo ferð að miðju jarðar. Svo létum við taka myndir af okkur með Guffa og Kobba krybbu (mig minnir Jimny Cricket úr Gosa heiti það á íslensku).

Reyndar endaði ég á því að ganga af mér fæturnar og leiðinni heim sem tók rúmar einn og hálfan tíma (gegnum alla Tokyo), langaði mig mest að taka fæturnar af við ökkla. Ég held að ég sé með níu blöðrur á fótunum. Lexían sem ég lærði? Ekki vera í sandölunum frá móður sinni sem notar einu skónúmeri minna þegar maður eyðir átta klukkustundum í Disneygarði.

Enda er ég löt í dag og ætla bara ekkert að fara neitt.

Stór í Japan

Þotuþreytan situr enn í mér. Þrátt fyrir lítinn svefn undanfarið og langflug. vaknaði ég um miðja nótt því ég var svo svöng, sem sagt um kvöldmatarleytið á Íslandi,

Flugið gekk allt saman vel þó svo að ég hefði viljað sofa meira þar. Þreytan sótti mjög fljót á mig þegar ég steig upp í rútuna sem flutti mig frá Narita flugvelli til Tokorozawa lestarstöðvarinnar þar sem ég hitti Elínu. Missti sem sagt af því að sjá Tokyo út um rútugluggann. Hef örugglega tækifæri seinna.

Gærdagurinn leið sem sagt hjá í þotuþreytu og hitaþreytu (frekar heitt og rakt í Japan núna) og þar svo sem skeði ekki neitt sem í frásögur færandi nema augun á mér voru jafnstór og undirskálar og þannig var það í dag.

Nokkrir hlutir sem ég hef uppgötvað síðastliðna tvo daga:

1. Ég er alltaf að sjá mömmu mína hérna. Það eru svo margar konur hérna á hennar aldri með svipaða hárgreiðslu og hún og gleraugu.

2. Bílarnir hérna eru margir hverjir eins og stækkaðir leikfangabílar.

3. Ég vissi að Japanir elska allt sem er krúttlegt en ég áttaði mig ekki á því að það á við um eldri kynslóðina líka.

4. Maturinn hérna er scary! Og ef einhver hefur haldið að hérna væri sushi selt á hverju götuhorni, þá skjöplast þeim.

Það er svolítið merkilegt að sitja í neðanjarðarlest og var eina manneskjan sem er ekki japönsk í vagninum. Þá komum við að titli póstsins. Það er langt síðan að ég taldist lítil og pen en hérna er ég eins og tröll. Á alla kanta. Mér finnst ég varla getað komist inn í sum húsin hérna.

En ég læt stærð mína ekki aftar mér að skoða mig um. Áðan skoðaði ég Koedo og Kita-in hofið í Kawagoe. Ansi áhugavert. Ég er alveg að fíla friðsældina við Búddahofin.

Ég á eftir að hlaða inn myndum fljótlega en núna ætla ég að hætta mér í það að smakka samloku og djús sem ég var að kaupa í búðinni á horninu.

Japan taka tvö (eða eiginlega þrjú)

Jæja, núna er ég loksins á leiðinni til Japan. Hin fyrirhugaða ferð sem átti að vera í mars, frestaðist vegna jarðskjálftans.

Ég ætla að reyna að blogga hérna á meðan ég er úti og setja myndir inn á flickr reikninginn minn sem má finna hérna.

 

Previous Older Entries