Bókatíðindi

Ég þyrfti að koma mér upp reglulegri áminningu um að uppfæra þetta blessaða blogg. Þó stundum mér finnist ég ekkert hafa að segja þannig séð. Ég hef bara verið á kafi í undirbúningi fyrir kennsluna og svona.

Reyndar brá ég mér til Reykjavíkur um síðustu helgi til að kíkja á litlu stelpuna hennar Hebu sem er svakalega sæt og fín. Ég tók meira að segja myndir en þarf að muna að hlaða þeim inn.

Annars þegar ég hef ekki verið á kafi að undirbúa sögukennsluna, þá hef ég verið að lesa stórskemmtilegar bækur í bókaflokki sem heitir Temeraire. Þeir sem hafa smá þekkingu í listasögu, þekkja mynd Turners, The Fighting Temeraire. Temeraire í bókunum er hinsvegar dreki en hann berst í Napóleonstyrjöldunum. Eiginlega eru bæknurnar sögulegar skáldsögur með drekum og það verður að segja eins og er, höfundurinn er það fær að það gengur fullkomlega upp.

Ég var eiginlega að gefast upp vegna þess að ég hafði eiginlega ekki lesið góða bók í langan tíma áður ég byrjaði að lesa Temeraire. Sumt var nú sjálfri mér að kenna eins og lesa Twilight fjórleikinn (sem verður nú víst gefin út í íslenskri þýðingu). En ég reyndi til dæmis að lesa Laxveiðar í Jemen sem hafði fengið góða dóma og hún var hundleiðinleg. Það er ekkert gaman að lesa hundleiðinlegar bækur.

Um leið og ég skrifaði þetta, fékk ég óstjórnlega löngun til að lesa Elísarbækurnar. Verð að muna eftir þeim næst þegar ég á leið um Amtsbókasafnið.

Auglýsingar

Harry Potter og brjóstahaldarar

Ég gat ekki annað en brosað út í annað þegar ég las gagnrýnina hans Árna Matthíasarsonar í Mogganum á mánudaginn um nýju Harry Potter bókina. Hann virkilega heldur að enginn hafi syrgt Sirius Black þegar hann dó í fimmtu bókinni. OK, Árni var ekki með mér og vinum mínum að lesa hana en í þeim hópi var fólk sem hætti að lesa Harry Potter vegna þess að það meikaði ekki dauðar Siriusar.

En nóg um það.

Ég var sem sagt út í Skotlandi um helgina, aðallega til þess að fá Harry Potter og lesa bókina í góðra vina hópi en ég náði að versla pínu. Nærföt aðallega. Vegna þess að það er næstum bara þess virði að borga fyrir flug til Glasgow (og lest til Edinborgar) til þess að ná í útsöluna í Marks og Spencer. Til dæmis keypti ég mér voðalega sætan fölgrænan brjóstahaldara á 3 pund sem gera 366 krónur, sá svo í einhverju blaðinu á mánudaginn auglýsingu frá Misty með brjóstahaldara sem var mjög svipaður sem kostaði 5.990 krónur (sem er bara rán og okur). Ég meina vá. Ég auðvitað veit að ég náði mér þarna í brjóstahaldara á mjög niðursettu verði en fínir og flottir brjóstahaldara í Marks og Spencer, jafnvel fyrir þær sem eru mjög brjóstgóðar, kostar svona í mesta lagi 18 pund á fullu verði. 18 pund eru svona 2.200 krónur sem er líka langa vegu frá því að vera 5.990 krónur.

Af hverju eru góðir brjóstahaldarar svona dýrir á Íslandi?

Kannski er einhver myrkur herra á bak við það.

Og svona að lokum til upplýsingar, þá er Harry Potter and the Deathly Hallows jafnvel betri á öðrum og þriðja lestri. (Er að lesa hana í annað skipti fyrir mig og er komin á 23. kafla þar en á kafla 15 í að lesa fyrir Gíslínu).

Mikið var að beljan bar

Mér hefur borist umkvörtun þess efnis að ég uppfæri þetta blogg ekki nógu oft.

Ég held bara að ég hafi lent í erfiðleikum með efnistökin. Hafði ætlað þetta fyrir stað fyrir hugrenningar mínar og svo þegar allt kemur til alls, þá dettur mér ekkert í hug til að skrifa hérna.

Ég get ekki einu sinni bloggað um bækurnar sem ég er að lesa vegna þess að ég virðist varla komast í gegnum nokkurra. Vandamálið er kannski að ég er bara reynda að gera hitt og þetta í frítímanum. Alltaf að skrifa eitthvað og líður illa þegar ég er ekki að skrifa sem þýðir reyndar að ég sit mikið fyrir framan sjónvarpið og læt mér líða illa.

Ja, reynar verður maður að horfa á sjónvarpið til að uppfylla dramakvótann. America’s Next Top Model og svo Project Runway. Tíska og dramatík. Besta blandan.

En ef ykkur langar að leggja eitthvað gott til málanna, þá megið þið mæla með einhverjum góðum íslenskum bókum fyrir mig að lesa (og þið getið sleppt því að nefna Arnald Indriða – er að reyna að vinna mig í gegnum Mýrina en klunnaleg samtölin eru að fara pínu í taugarnar á mér).

Nammi … bækur

Ég á alveg óskaplega mikið af bókum. Ég hef ekki haft fyrir því að telja þær en tel nokkuð víst að þær séu fleiri en þúsund enda nægir mér ekki stóri bókaskápurinn minn heldur verð ég að nota efri hluta fataskápsins míns undir þær.

Það er langt í frá að ég hafi náð að lesa þetta allt saman nákvæmlega. Sú staðreynd kemur samt ekki í veg fyrir að mig langar alltaf í fleiri bækur. Þessi undarlega tilfinning sem ég finn fyrir þegar ég stíg inn í bókabúð er furðuleg. Ég fyllist óeirð og kíkt pínulítið í margar, margar bækur eins og manneskja sem gengur á milli matarkynningarborða og graðgar í sig allt sem þar er að finna. Stundum held ég að ég sé haldin bókafíkn. Ekki það að hvaða bók sem er getur satt þessa löngun mína. Mig langar t.d. afar sjaldan í innbundnar skáldsögur á íslensku. Kiljur, sérstaklega á ensku, finnst mér meira spennandi en þó ekki eins spennandi og stórar fræðslubækur fullar af myndum. Reyndar held ég að staðreyndafíknin og bókafíknin komi þar saman enda finnst mér flottar fræðibækur næstum jafn spennandi og Orlando Bloom ber að ofan.

Ég ætti kannski bara að fara að lesa.

íturvaxin snót

Eins og kannski flestir vita sem þekkja mig, þá er ég Harry Potter aðdáandi og finnst J.K. Rowling vera frábær höfundur og það sem kannski meira er, frábær manneskja.

Hún á heimasíðu sem er með þeim flottari, www.jkrowling.com og uppfærir þar svona af og til, stundum um bækurnar og stundum um hugðarefni sín. Í dag var uppfærsla þar sem hún talaði um staðaltýpur og hvernig yfirborðskennd og hégóma væri hyllt og í okkar samfélagi væri það í raun og veru verra að vera feitur en t.d. að vera grunnhyggin eða leiðinlegur. (Hérna er beinn hlekkur á færsluna).

Það er kannski ekki beint gott fyrir heilsuna að vera of feitur en ég veit að mikill meirihluti þeirra sem eru með aukakíló, vita að þeir séu of þungir og langar til að gera eitthvað í því. Það er hinsvegar ekki auðvelt og ég þoli ekki að þegar fólk þykist vera betri en ég bara vegna þess að það er grannara. Enda tek ég ekki mark á svoleiðis fólki.