Disney blöðrur

Þotuþreytan er enn að birtast þó svo ég sé nú búin nokkrun veginn að laga mig að japönskum tíma. Vandamálið er að magann langar alltaf í mat um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma sem er mið nótt að japönskum tíma. Hef reyndar lítið látið það eftir honum. Samt hryllilega fyndið.

Þeir sem hafa kíkt á flickrið mitt síðan í gær, hafa örugglega séð að ég og Elín brugðum okkur í Disneyland í gær. Ja, reyndar í Tokyo DisneySea því það eru tveir Disneygarðar þarna. Við gistum líka á hóteli þarna á Disney resortinu, fínasta hótelið sem ég hef hingað til gist á.

Enda sátum við í morgunmat þarna þegar þessi jarðskjálfti reið yfir. Við vorum ansi langt frá upptökunum en hann fannst samt. Kannski vegna þess að Disneydæmið er byggt á landfyllingu. Þessi jarðskjálfti var svo lítið eins og lenda í öldugangi, þetta var ekki svona högg eins og maður finnur heima. Allir héldu samt ró sinni.

Allavega við skemmtum okkur ágætlega þegar við vorum komnar af hótelinu. Disneygarðar eru frekar flottir bara til að skoða og það var frekar gaman að fara í þau tæki sem við fórum í. Það var eitt stykki rússíbani, Indiana Jones tæki sem er „hræðilega“ skemmtilegt (enda er röðin í það frekar löng) og svo ferð að miðju jarðar. Svo létum við taka myndir af okkur með Guffa og Kobba krybbu (mig minnir Jimny Cricket úr Gosa heiti það á íslensku).

Reyndar endaði ég á því að ganga af mér fæturnar og leiðinni heim sem tók rúmar einn og hálfan tíma (gegnum alla Tokyo), langaði mig mest að taka fæturnar af við ökkla. Ég held að ég sé með níu blöðrur á fótunum. Lexían sem ég lærði? Ekki vera í sandölunum frá móður sinni sem notar einu skónúmeri minna þegar maður eyðir átta klukkustundum í Disneygarði.

Enda er ég löt í dag og ætla bara ekkert að fara neitt.

Auglýsingar