Vetrarblús á Akureyri

Það er snjór á Akureyri en það er ekkert nýtt. Ég held reyndar að það væri bara skrýtið þegar snjórinn loksins fer. Væntanlega verður það að þannig að maður getur bara keyrt í Drive um allt á sjálfskipta bílnum sínum og þvíumlíkt. Það var nefnilega stuð að festast í rampanum frá Glerártorgi upp á Þórunnarstræti á mánudaginn. Ég þurfti að bakka niður, setja í low drive og gefa í til að komast upp.

En mér dettur ekki í hug að kvarta undan snjónum.

Annars ætlaði ég að fara að sofa snemma í gærkvöldi sem og ég gerði. En mér leið samt eins og undinni tusku þegar ég vaknaði, mig dreymdi nefnilega snáka í alla nótt. Ég las mér til um hvað það gæti hugsanlega táknað. Hugnaðist illa fraudíska skýringin þó svo hún útskýri vel af hverju ég var þreytt.

Læt það svo fylgja í lokin að ég er alls ekki með á nótunum og áttaði mig bara ekki á því að þeir hefðu ákveðið að hafa Gettu Betur á laugardegi. Öðruvísi mér áður brá.

Auglýsingar

Barnalegt

Ef það væri eitthvað eitt sem ég ætti að segja um Akureyri, þá myndi ég segja að hér væri mikið af börnum. Las á forsíðu Moggans áðan (var úti í búð) að fæðingartíðnin á meginlandi Evrópu væri orðin ískyggilega lág. Þeir ættu að fá Akureyringa í málið.

Annars var verið að skíra litlu nágranna mína í gær og ber þau hin myndarlegustu nöfn enda hin myndarlegustu börn.

Og í frekari barnafréttum, þá átti hún Heba, vinkona mín, stelpu á afmælisdaginn sinn, núna bara á föstudaginn. Ekki er það barn akureyskt en Íslendingar eru nú frekar frjósamir yfir höfuð. Meira en tíunda hver kona í mínum aldurshópi (í kringum þrítugt) átti barn á síðasta ári.

Mér líður bara bærilega hérna annars nema hvað ég er farin að fá undarlega slæma drauma. Eins og bara núna í nótt þegar mig dreymdi að ég væri með allri Vallafjölskyldunni í rútuferð (og ég var að passa einhverja hunda en það kemur engum á óvart) en svo komst rútan ekki áfram vegna þess að það var komið eldgos í Ingólfsfjallinu og ég vaknaði við það þegar öskunni fór að rigna yfir rútuna. Og það hafa verið fleiri svona heimsendadraumar. Sem betur fer efast ég um að ég sé berdreymin.