Rykið blásið af

Ég held að það sé um eitt og hálft ár síðan ég setti færslu hérna inn seinast. En núna ætla ég að reyna koma þessu bloggi aftur af stað.

Það er reyndar góð ástæða fyrir því. Ég ætla nefnilega í ferðalag til Japans fljótlega. Meiningin er að reyna halda einhvers konar ferðadagbók um það ferðalag hérna á þessu bloggi. Sjáum til hvernig það gengur. En ég mun fljúga út þann 14. mars svo það er stutt þangað til.

 

Auglýsingar

Ræmur um unglingsárin

Póstaði ég seinast í maí? Ég held það og það er komin ágúst. Ég komin aftur til Reykjavíkur og flutt í Sörlaskjólið auk þess að bíða eftir því að finna vinnu við hæfi. Ef ekki, þá er ég víst á leiðinni í háskólann.

En ég nenni ekki að tala um það.

John karlinn Hughes var að deyja. Svona fyrir þá sem ekki þekkja til, þá gerði hann myndir á borð við Home Alone og svo var hann ábyrgur fyrir kvikmyndaferli Molly Ringwald og frasanum „Anyone? Anyone? Bueller?“ (þó svo ég held að þetta hafi ekki verið orðað nákvæmlega svona í Ferris Bueller’s Day Off).

Hvað um það, fólk talar um að hann hafi náð anda unglingsáranna vel í sínum bíómyndum. Ja, ég veit ekki hver upplifði unglingsár sín eins og John Hughes mynd en það var sannarlega ekki ég. Mér fannst t.d. hin margrómaða Breakfast Club vera hálfgerð froða en kannski hefur það eitthvað með það að gera að ég sá þá mynd ekki fyrr en ég var búin að sjá þátt í fyrstu seríu af Dawson’s Creek sem vísaði mikið í Breakfast Club.

Nei, þær eru ekki margar amerísku unglingamyndirnar sem líkjast því sem maður upplifði sjálfur sem unglingur. Þær eru ekki kannski allar alslæmar en hversu mikið sem ég held upp á Dazed and Confused (leikstýrð af Richard Linklater), þá finnst mér hún ekkert lýsa því sem ég upplifði sem unglingur.

Góðu og raunsönnu unglingamyndirnar koma nefnilega frá Svíþjóð. Það þekkja margir til Fucking Åmål, kannski ekki jafnmargir sem þekkja til Hip Hip Hora! en sú mynd er feykilega góð. Ég reyndar efast um að Ameríkanar myndu höndla þessa mynd. Hún var víst bönnuð undir 18 í Bretlandi og er samt um 13-14 ára krakka. Heh, Bretar. Ég horfði nú á Skins sem fjallar um unglinga á svipaðan hátt (reyndar örlítið meira um staðalímyndir þar).

Ætli vorið sé komið?

Það er víst ár og dagur síðan ég uppfærði þetta blogg seinast. Ég held á tíma hafi mér fundist eins og það eina sem væri að gerast á Akureyri væri snjór og meiri snjór.

Á ekki alveg við núna þó svo fjöllin séu enn vel hvít. Ég held nefnilega að hitastigið hafi skriðið upp í tveggja stafa tölu í dag. Þó lét veturinn vita af sér á föstudagskvöldið þegar það var ógeðslegt slydduél út um allt.

Líklegast muni ég svo ekkert hafa miklar áhyggjur af akureyskum snjó næsta vetur þar sem ég verð mun líklega í Reykjavík. Það bara virðist engum vanta sögukennara. 😦 Og ég veit ekkert hvað ég er að fara að gera af mér í Reykjavík.

En þar sem ég nenni eiginlega ekkert að velta mér upp úr þessu eða öðrum leiðinlegum hlutum eins og stjórnmálum, þá ætla ég að tala um sæta stráka. Ég hef alveg rosalega gaman af svona listum þar sem fallegt fólk eru sett niður á lista. Það getur verið gaman þegar maður er alls ekkert sammála listunum. Það kemur oft fyrir með breska lista þar sem helmingurinn er fólk sem maður getur samþykkt að sé myndarlegt en hinn helmingurinn er barasta ekkert myndarlegur. Svo er náttúrulega fólk sem getur verið að einhverjum finnist myndarlegt en mér svo sannarlega ekki. T.d. Vin Diesel.

Reyndar var ég að komast að því að ég hef mjög svipaðan smekk og samkynhneigðir karlmenn. Þessi listi er valin af samkynhneigðum karlmönnum og ég er bara sammála flestu þarna. Slefa kannski ekki yfir alveg öllum en er mjög sátt á heildina litið.

Vetrarblús á Akureyri

Það er snjór á Akureyri en það er ekkert nýtt. Ég held reyndar að það væri bara skrýtið þegar snjórinn loksins fer. Væntanlega verður það að þannig að maður getur bara keyrt í Drive um allt á sjálfskipta bílnum sínum og þvíumlíkt. Það var nefnilega stuð að festast í rampanum frá Glerártorgi upp á Þórunnarstræti á mánudaginn. Ég þurfti að bakka niður, setja í low drive og gefa í til að komast upp.

En mér dettur ekki í hug að kvarta undan snjónum.

Annars ætlaði ég að fara að sofa snemma í gærkvöldi sem og ég gerði. En mér leið samt eins og undinni tusku þegar ég vaknaði, mig dreymdi nefnilega snáka í alla nótt. Ég las mér til um hvað það gæti hugsanlega táknað. Hugnaðist illa fraudíska skýringin þó svo hún útskýri vel af hverju ég var þreytt.

Læt það svo fylgja í lokin að ég er alls ekki með á nótunum og áttaði mig bara ekki á því að þeir hefðu ákveðið að hafa Gettu Betur á laugardegi. Öðruvísi mér áður brá.

Nýja árið og smá kattarfár

Gleðilegt nýtt ár til ykkar sem kynnu að lesa þetta blogg. Árið 2009 ætlar að byrja með látum hjá mér því nú er skollin á prófatíð í MA og mikið stuð varðandi prófasamningu, yfirsetur og svo þarf maður víst að fara yfir einhver próf líka.

Ég var í minni fyrstu yfirsetu í dag og það gekk nokkuð áfallalaust þó svo blessaðir nemendurnir gerðu tilraunir til að spyrja mig um spurningar á prófinu sem var nota bene efnafræðipróf. Allt er hey í harðindum segi ég.

Hátíðarnar voru mjög indælar en það var eiginlega gott að komast aftur í vinnuna þrátt fyrir að ég gæti alveg hugsað mér að halda áfram að sofa út og svona.

Hérna eru tvö myndbandsbrot af því sem ég tók mér fyrir hendur um hátíðarnar.

Myndband 1

Myndband 2

(Þetta er Gandalfur, kettlingurinn hennar Ásu vinkonu minnar og það er ég sem er atast þarna í greyinu).

Það er gott að fá mömmu sína

Mamma gamla kom til mín á laugardaginn svona rétt þegar ég hafði lokið við að troða mig út eins  og grís á jólahlaðborði starfmannafélags Menntaskólans á Akureyri.

Hún skildi nú ekkert í því hvað ég hefði verið að tala um að fá hana til að þrífa og svona þar sem henni fannst allt spikk og span hjá mér. Ég sem skúraði bara smá kvöldið áður en hún kom. En hún straujaði fyrir mig sem var æði.

Við fórum í leikhús á laugardaginn og sáum Músagildruna sem var fínt. Verð að fara meira í leikhús hérna á Akureyri. Svo á sunnudeginum eyddum við smá pening og skoðuðum okkur um í búðum á Akureyri. Við gerðumst líka menningalegar og komum við á listasafni Akureyrar. Fórum svo í Jólagarðinn sem var ansi troðinn af fólki en enduðum svo að troða okkur út af kökum á kaffihlaðborði í Kaffi Vin sem er við Hrafnagil.

Ég þurfti nú eitthvað að þykjast að vinna í gærkvöldi svo við héldum okkur heima og svo var mamma bara að dingla sér hérna hjá mér í dag á meðan ég var að kenna. Ég kom heim í þennan fína hádegismat og leyfði mér meira að segja að fá mér kríu svona út af því að ég gat verið viss um að móðir mín myndi nú pikka í mig ef ég væri líkleg til að sofa yfir mig. Svo þegar ég var búin að kenna, kom ég heim og við fórum aðeins í bæinn. Svona til þess að hún gæti eytt pening í myndlist. Fékk hana til að kaupa ofsalega fallegt grafíkverk eftir Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur.

Þá var haldið heim á leið til fá sér í gogginn áður en ég myndi senda kellu til Reykjavíkur aftur. Þangað er hún víst komin heil og höldnu og innan við tvær vikur þangað til að ég sé hana aftur þegar ég fer til Reykjavíkur í jólafríinu.

Ég er farin að telja niður þó svo ég eigi eftir að gera svo ótal margt. Klára að fara yfir ritgerðir og kaupa jólagjafir og svona. Gef öllum bara í sund á Akureyri og gjafakort upp á ís í Brynju. Þá hlýtur að verða stöðugur straumur af fólki hingað.

Stöðugreining

Það er orðið ansi langt síðan að ég uppfærði hérna. Ég ber því við að ég er búin að vera hryllilega upptekin við hluti sem eru ekki í frásögur færandi.

Það er búið að vera nóg af snjó hérna á Akureyri þó svo að hann hafi stundum tekið upp – svona inn á milli. En ég hef svo sem varla gefið því gaum nema þau fáu skipti sem ég hef ætlað að nota bílinn og þurft að skafa af honum. Ég er bara búin að vera hræðilega upptekin í vinnunni. Jafnvel þegar ég fékk frí um daginn og skrapp til Reykjavíkur, þá var ég upptekin þar líka. Ég varð bara vinsælasta manneskjan í heiminum og hitti stóran hluta af vinum mínum. Það var nú reyndar voðaljúft.

Núna situr maður með sveittan skallann og fer yfir ritgerðir hjá krökkunum sem eru hjá mér í menningarsögu. U.þ.b. hálfnuð með þau sem vonandi þýðir það að ég get hent í þau ritgerðnum fyrir jól.

Svo ætlar mamma gamla að heiðra mig með nærveru sinni um helgina og þrífa og taka til.

Ég þyrfti nú að verða mér út i um jólaskraut. Svona til að lífga upp á pleisið.

Previous Older Entries Next Newer Entries