Um merkilegt fólk og fleira

Maður þarf að fara að uppfæra þetta oftar. Það er svo margt sem mig langar að tala um.

Skólinn er nú eitt en ég veit ekki hversu áhugavert sé að heyra um hann. Ég held að ég geymi það þangað til að ég verð byrjuð í æfingakennslunni, þ.e.a.s. ef ég fæ einhvern til að kenna hjá. Þessir kennarar vilja bara ekki svara tölvupóstum. (Á meðan ég var að skrifa þessa færslu þá kom tölvupóstur frá einum af þeim sem ég hafði samband við. Sá kenndi mér þegar ég var í MH.)

Mér var nú ansi brugðið þegar ég frétti í gærkvöldi að Heath Ledger væri látinn. Einn af mínum uppáhaldsleikurum og jafngamall mér. Frammistaða hans í Brokeback Mountain (sem er ein besta kvikmynd sem gerð hefur verið) var betri en orð fá lýst. Ég mæli svo sannarlega með henni. Einnig held ég mikið upp á aðrar myndir með honum eins og Knight’s Tale, 10 Things I Hate About You og Ned Kelly. Ég held að það megi segja að þetta sé kvikmyndaheiminum og kvikmyndaunnendum harmdauði, hvað þá fjölskyldu hans.

 En svo ég taki upp léttara tal, The Daily Show sem heitir A Daily Show á meðan handritshöfundaverkfallinu stendur,  sýndi í gærkvöldi fyrri hlutann af tveimur um þátttöku Íslendinga í Írak. Þeim sem leikur forvitinn að sjá þetta, smellið hér og veljið „Operation Deserter Storm“ af sleðalistanum í miðjunni. Ef að þið eruð að lesa þetta eitthvað eftir 23. janúar, þá mæli ég með að þið smellið þar sem segir videos í stikunni þarna upp og finnið myndbandið þar. Gaman var að sjá Stefán Pálsson í viðtali þarna.

Og talandi um gamla Gettu Betur keppendur og dómara, ég horfði á Ármann Jakobsson í Sunndagskastljósinu hjá Evu Maríu Jónsdóttir. Það fannst mér gott viðtal enda finnst mér heilmikið til Ármanns koma. Hann á m.a. heiðurinn að hafa skrifað afarskemmtilega en umfram allt góða fræðibók um konungasögu sem heitir Í leit að konungi. En hann sagði ýmislegt merkilegt. Eins og þegar hann lýsti lífstíl sínum og hvernig hann lætur ekki toga sig í allar áttir. Og ég gat verið sammála honum með að svara spurningum í Gettu Betur. Mér fannst t.d. ég geta svarað miklu meira þegar ég var undir pressu og að keppa en ég get nokkurn tímann sitjandi heima í stofu að horfa á spurningakeppni. Það kannski útskýrir að hluta til minni oft á tíðum takmarkaða áhuga á að horfa á spurningakeppnir í sjónvarpinu. Ég geri það oft eingöngu af skyldurækni.

Auglýsingar

I can haz gud engleesh?

Ég hef nú ekkert verið að slíta út þessu bloggi undanfarið en það eru svo sem góðar ástæður fyrir því.

En ég ætlaði heldur ekki að láta þetta lognast út af svo ég fór að reyna láta mér detta eitthvað í hug til að skrifa um. Það er margt sem brennur á þjóðarsálinni um þessar mundir en flest af því eitthvað sem ég nenni ekki að tala um í bili. Mér gæti svo sem dottið í hug að skrifa eina færslu eða svo um femínisma en ekki verður það núna.

Það er hinsvegar eitt sem ég hef ætlað að tala um í nokkurn tíma og var minnt á það á laugardagskvöldið. Var á ferðinni, held ég að koma frá því að keyra mömmu í jólahlaðborð. Það er ekki í frásögur færandi nema að lagið Perfect Day með Lou Reed heyrist í útvarpinu. Mér finnst Perfect Day frekar gott lag og hefur fundist það frá því að ég heyrði það í Trainspotting hérna fyrir meira en tíu árum. Sem minnti mig á fólkið sem vill endilega fá lagið flutt í brúðkaupi sínu. Þó svo að það megi túlka textann á marga vegu, er ekki hægt að afneita tengingunni við heróínneyslu – eitthvað sem fæstir myndu vilja tengja við brúðkaupið sitt. En sem sagt þessi einfeldni leiddi mig út í hugsanir um aðra einfeldni.

Í Baugsmálinu var sífellt verið að vísa í fundargerðir stjórnar Baugs sem voru á ensku og ég vona að ég hljómi ekki hrokafull þegar ég segi að þeir voru ekkert að springa úr orðaforða svo að segja. Ekki vitlaust mál þannig lagað en maður þurfti nú varla að hafa náð samræmda prófinu í ensku til að geta lesið þessar fundargerðir. Hafandi þetta í huga og ýmislegt annað, meðal annars hversu mikið ég hef orðið að hafa fyrir minni enskukunnáttu, þá hefur mér fundist umræða um að taka upp sem aðalmál innan ákveðinna fyrirtækja pínulítið barnaskapur. Nú efa ég ekki að margir starfsmenn þessara fyrirtækja séu bara ágætt enskufólk sem fari létt með að brúka ensku dags-daglega. En ég get ekki ímyndað mér að þannig sé farið með alla starfmennina. Það er örugglega einhverjir þarna sem eiga að skrifa tölvupósta eða annan texta og láta eitthvað svona frá sér fara: „Since 5 weeks ago, opportunity’s are less then befour.“ OK, villupúkinn myndi kannski grípa befour þar sem það er vitlaus starfsetning en „Since … ago“ er ekki neitt sem villupúkinn myndi pikka upp á en er vitlaust þar sem það nægir að nota annað. „opportunity’s“ er eignarfallið, ekki fleirtalan sem myndi vera „opportunities“. Komman kemur fleirtölu ekkert við nema orðið sem stendur í fleirtölu, sé einnig í eignarfalli og þá yrði það svona „opportunities'“. Less er náttúrulega bara vitlaust og ætti að vera „fewer“ og „then“ er notað á sama hátt og forsetningarnar þá og þegar. Í staðinn ætti að standa „than“. Befour var svona til að minna á að það er erfitt að stafsetja á ensku vegna þess að það getur munað miklu milli þess hvernig orðið er borið fram og hvernig það er skrifað.

Svo var setningin í sjálfu sér kolröng.

En kannski eru bankarnir og önnur fyrirtæki vilja taka upp enskuna, með góða enskukennslu. Hvað veit ég?

Réttindi samkynhneigðra

Ég held að það sé ekki hægt að gera annað en fagna þeirri leiðréttingu á grundvallarmannréttindum sem gerð verður þann 27. þessa mánaðar. (Sjá nánar hér).

Auðvitað vil ég sjá þetta ná lengra eins og það að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Hvað hafa andmælendur þess að styðjast við? Biblíuna? 

Ég nenni ekki að fara út í trúfræðilegar og sagnfræðilegar pælingar hér en það eru bara ekki allir kristnir og hér ríkir trúfrelsi. Og svo er hjónabandið tilkomið sem veraldleg stofnun vegna eignaréttar. 

Reynar nenni ég ekki að fara sjálf út í þá sálma og linka frekar á þetta frábæra clip úr The Daily Show, þar sem Jon Steward hrekur ofan í einhvern kappa öll hans rök um að hjónaband samkynhneigðra séu fjölskyldunni hættuleg. Best er að hann reynir að benda á einhver "vandamál" sem þær þjóðir sem hafa leyft hjónabönd samkynhneigðra eigi að glíma við. Hvað sem gæti verið að í Noregi eða Svíþjóð, ja, líttu þér nær manni. Ameríka er í miklu meiri vanda en þessar þjóðir. 

Nú lágu Danir í því

Ein helsta fréttin þessa dagana er af striðu sambandi Dana (og Norðmanna) við Mið-Austurlönd vegna þess að það birtist skopmynd af Múhammeð spámanni í Jótlandspóstinum.

Ég býst við því að Jótlandspósturinn hafi ekki haft neitt illt í hyggju með myndbirtingunni en hins vegar finnst mér fáfræði fjölmiðla mikil, bæði hérna heima og út í Danmörku. Miðað við hvað Mið-Austurlönd eru mikið í fréttum og það að Íslam er sú trúarhreyfing í heiminum sem vex hraðast, þá finnst mér að fréttamenn og stjórnmálamennsem taka sig alvarlega, ættu að vita að Múhammeð fyrirbað það að gerðar yrðu myndir af honum sem og myndir af Allah, m.a. til þess að forðast skurðgoðadýrkun og í því liggur líklega aðalástæða reiði múslima.
Ég viðurkenni fúslega að hérna er um að ræða árekstra á gildum. Friðhelgi trúarbragða og svo mál- og ritfrelsi. Hvað á svo að virða?

Að sumu leyti má líkja þessu við fjaðrafokið vegna Kristsímyndar sem listmaðurinn Andres Serrano gerði þar sem Kristur á krossinum hafi verið dýft í þvag listamannsins og svo líka Maríu-myndar Chris Ofili, gerðar úr m.a. fílaskít og skreytt úrklippum af kynfærum kvenna úr klámblöðum. Þessar myndir fóru vitaskuld fyrir brjóstið á mörgum en var það ekki réttur listamanna að tjá sig á þann hátt sem þeir vildu?

Eins öfugsnúið og það virðist verða, þá gengur betur nota tjáningarfrelsi að verja gerðir listamannana þar sem þeir voru vísvitandi að ögra með myndum sínum. Ég get ekki betur séð en að skopmyndagerð Jótlandspóstsins hafi ekki verið til að ögra vísvitandi heldur eins og pólítískum skopmyndum er oftast nær ætlað, að líta á málin út frá kaldhæðnu ljósi.

Kannski er spurningin hvort að hægt sé að skýla fáfræði á bak við tjáningarfrelsi.