Hof og önnur mannleg stórvirki

Mér tókst að láta jarðskjálfta upp á 6.5 framhjá mér fara áðan. Elín fann hann hinsvegar.

En slíkt eru nú barnavíprur við hliðina á því sem átti sér stað í Noregi. Hvernig getur einhver hatað annað fólk svo mikið?

Manni verður náttúrulega umhugsað um það þegar maður hefur verið að upplifa hversu stórkostlega, fallega og undarlega hluti mannkynið getur áorkað.

Kyoto var hreint útsagt stórkostleg, þrátt fyrir að hafa verið ansi blaut á meðan við vorum þar. Kannski var það þess vegna sem við vorum frekar temilegar í því að skoða hofin. Það er nefnilega ansi mörg falleg og fræg hof í Kyoto en við lætum okkur nægja að sjá Kiyomizu-dera, Kodai-ji og Ginkaku-ji. Held reyndar að ég geti lifað lengi á þeim heimsóknum.

Það er eitthvað við þessi búddhahof sem mér finnst alveg magnað, einhver innri ró sem fyllir mann. Án þess að telja að þarna séu einhver trúarleg áhrif í gangi, þá held ég að þarna séu einhvers konar fullkomið samræmi eða harmónía milli bygginga og umhverfis.

Það var líka rosalega gaman að sjá Gion hverfið í Kyoto þar sem áður menn komu til að eiga samneyti við geishur en í dag eru ótölulegur fjöldi næturklúbba.

Eftir að við komum „heim“ til Saitama, höfum við brallað ýmislegt. T.d. farið í karaoke (ætlum aftur í kvöld). Ég verð að segja að mér finnst alveg rosalega gaman í karaoke hérna í Japan. Það er eitthvað svo óbeislað við það hérna, þetta gengur ekki út á að þykjast vera eitthvað heldur bara að syngja og engu skiptir hvort maður syngur illa eða vel. Það hjálpar líka að maður fer yfirleitt í svona karaoke box þar sem maður fær einkaherbergi með vinum sínum og er ekki beint að troða sér upp á ókunnuga.

Svo er ég búin að fá aðeins meiri innsýn í verslunargeðveikina í Tokyo. Fór til Akihabara sem er m.a. raftækjahimnaríki. Keypti reyndar ekki neitt. Í gær fórum við Elín til Ikebukoro sem er svolítið „á spítti“ og ég náði að versla svolítið þar. M.a. í hinni alræmdu Tokyu Hands sem er búð með allt sem þú vissir ekki að þú þurftir. Og þar er Nekobukuro eða kattahúsið þar sem þú getur, gegn gjaldi, farið og klappað kisum.

Vona að fjölskyldan hafi það gott á ættarmóti.

Auglýsingar