Það er gott að fá mömmu sína

Mamma gamla kom til mín á laugardaginn svona rétt þegar ég hafði lokið við að troða mig út eins  og grís á jólahlaðborði starfmannafélags Menntaskólans á Akureyri.

Hún skildi nú ekkert í því hvað ég hefði verið að tala um að fá hana til að þrífa og svona þar sem henni fannst allt spikk og span hjá mér. Ég sem skúraði bara smá kvöldið áður en hún kom. En hún straujaði fyrir mig sem var æði.

Við fórum í leikhús á laugardaginn og sáum Músagildruna sem var fínt. Verð að fara meira í leikhús hérna á Akureyri. Svo á sunnudeginum eyddum við smá pening og skoðuðum okkur um í búðum á Akureyri. Við gerðumst líka menningalegar og komum við á listasafni Akureyrar. Fórum svo í Jólagarðinn sem var ansi troðinn af fólki en enduðum svo að troða okkur út af kökum á kaffihlaðborði í Kaffi Vin sem er við Hrafnagil.

Ég þurfti nú eitthvað að þykjast að vinna í gærkvöldi svo við héldum okkur heima og svo var mamma bara að dingla sér hérna hjá mér í dag á meðan ég var að kenna. Ég kom heim í þennan fína hádegismat og leyfði mér meira að segja að fá mér kríu svona út af því að ég gat verið viss um að móðir mín myndi nú pikka í mig ef ég væri líkleg til að sofa yfir mig. Svo þegar ég var búin að kenna, kom ég heim og við fórum aðeins í bæinn. Svona til þess að hún gæti eytt pening í myndlist. Fékk hana til að kaupa ofsalega fallegt grafíkverk eftir Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur.

Þá var haldið heim á leið til fá sér í gogginn áður en ég myndi senda kellu til Reykjavíkur aftur. Þangað er hún víst komin heil og höldnu og innan við tvær vikur þangað til að ég sé hana aftur þegar ég fer til Reykjavíkur í jólafríinu.

Ég er farin að telja niður þó svo ég eigi eftir að gera svo ótal margt. Klára að fara yfir ritgerðir og kaupa jólagjafir og svona. Gef öllum bara í sund á Akureyri og gjafakort upp á ís í Brynju. Þá hlýtur að verða stöðugur straumur af fólki hingað.

Auglýsingar

Stöðugreining

Það er orðið ansi langt síðan að ég uppfærði hérna. Ég ber því við að ég er búin að vera hryllilega upptekin við hluti sem eru ekki í frásögur færandi.

Það er búið að vera nóg af snjó hérna á Akureyri þó svo að hann hafi stundum tekið upp – svona inn á milli. En ég hef svo sem varla gefið því gaum nema þau fáu skipti sem ég hef ætlað að nota bílinn og þurft að skafa af honum. Ég er bara búin að vera hræðilega upptekin í vinnunni. Jafnvel þegar ég fékk frí um daginn og skrapp til Reykjavíkur, þá var ég upptekin þar líka. Ég varð bara vinsælasta manneskjan í heiminum og hitti stóran hluta af vinum mínum. Það var nú reyndar voðaljúft.

Núna situr maður með sveittan skallann og fer yfir ritgerðir hjá krökkunum sem eru hjá mér í menningarsögu. U.þ.b. hálfnuð með þau sem vonandi þýðir það að ég get hent í þau ritgerðnum fyrir jól.

Svo ætlar mamma gamla að heiðra mig með nærveru sinni um helgina og þrífa og taka til.

Ég þyrfti nú að verða mér út i um jólaskraut. Svona til að lífga upp á pleisið.

Barnalegt

Ef það væri eitthvað eitt sem ég ætti að segja um Akureyri, þá myndi ég segja að hér væri mikið af börnum. Las á forsíðu Moggans áðan (var úti í búð) að fæðingartíðnin á meginlandi Evrópu væri orðin ískyggilega lág. Þeir ættu að fá Akureyringa í málið.

Annars var verið að skíra litlu nágranna mína í gær og ber þau hin myndarlegustu nöfn enda hin myndarlegustu börn.

Og í frekari barnafréttum, þá átti hún Heba, vinkona mín, stelpu á afmælisdaginn sinn, núna bara á föstudaginn. Ekki er það barn akureyskt en Íslendingar eru nú frekar frjósamir yfir höfuð. Meira en tíunda hver kona í mínum aldurshópi (í kringum þrítugt) átti barn á síðasta ári.

Mér líður bara bærilega hérna annars nema hvað ég er farin að fá undarlega slæma drauma. Eins og bara núna í nótt þegar mig dreymdi að ég væri með allri Vallafjölskyldunni í rútuferð (og ég var að passa einhverja hunda en það kemur engum á óvart) en svo komst rútan ekki áfram vegna þess að það var komið eldgos í Ingólfsfjallinu og ég vaknaði við það þegar öskunni fór að rigna yfir rútuna. Og það hafa verið fleiri svona heimsendadraumar. Sem betur fer efast ég um að ég sé berdreymin.

Ættarmótið 2008
Just driving around

Originally uploaded by ingathora23

Sá eitthvern auglýsingasnepil í dag þar sem stóð eitthvað á þá leið: „Aðalvinningur: PS3 Talva.“ Það tók mig langan tíma að átta mig hvaða fyrirbæri talva væri.

Hvað um það, ég mætti á ættarmót um helgina. Reyndar ekki fyrr en á laugardeginum þar sem að ég var á seinustu vaktinni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Allt fór þetta vel fram nema þegar fjölskyldan ákvað að láta göngutúr verða að lögreglumáli eftir að hún móðir mín lenti í því að hestur felldi hana um koll. Þrátt fyrir brotna tönn og laskað hné, lætur hún ekki illa af sér. Ég vona líka að Sædís líti ekki lengur út eins og Huggy Ragnarsson en hún datt af hestbaki og fékk högg á efri vörina svo að hún leit út fyrir að hafa brugðið sér í varafyllingu.

Að venju tók ég myndir sem má finna hér meðal annars.

Og að lokum er hér til hliðar myndband af Hauki Þór ökusnillingi.

Ættarmót 2007

Jæja, krakkar. Ég nenni svo sem ekkert að rekja hvað fram fór seinustu helgi þegar Vallafjölskyldan hélt sitt árlega ættarmót. Enda fór ég bara alltof snemma að sofa og svona og missti af fjörinu. Getur jafnvel verið að mér verði útskúfað fyrir að standa mig ekki í djamminu.

En kannski get ég bætt fyrir það með myndum. Tjékkið á flickr tenglinum hér til hliðar eða bara skoðið þetta sett hérna.

Að hitta fólk

Í dag hitti ég fólk.

Og þá er ég ekki að tala um vinnuna þar sem ég heilsa öllum og engum. Þetta byrjaði náttúrulega í strætó þegar ég hitti hana Sigrúnu Jóns (sem ég reyndar hitti líka á þriðjudaginn þegar ég sá hana með Fanneyju frænka þar sem þær voru, eins og ég, að koma út af tónleikunum með Air).

En reyndar hafði ég mælt mér mót við fólk. Ég hitti nefnilega vinkonu mína af netinu, hana Janni og manninn hennar, hann Larry. Við hittumst fyrir utan grasgarðinn og fengum okkur að borða í Café Flóru. Mér fannst Janni rosa hugrökk þegar hún fékk sér leverpostej. Ég hitti hana Möggu sem vann með mér í póstinum þarna í Flóru og svo á meðan við vorum þarna, þá sá ég konu sem ég kannaðist ansi mikið við. Svo þegar við höfðum lokið við að borða og vorum að skoða grasagarðinn, labbar konan fram hjá mér og heilsar mér og ég heilsa og átta mig á því þegar ég stelpuna sem var að leiða hana og manninn og strákinn á eftir þeim, að þetta var hún Þóra frænka mín með fjölskylduna sína. Svona getur maður verið vitlaus.

En eins og ég segi, þá var æðislegt að hitta Janni og Larry. Við töluðum um Íslendingasögurnar því að þau eru mjög hrifin af þeim og eru bara almennt hrifin af Íslandi. Þetta er annað skiptið þeirra hérna og mér heyrðist á þeim að þeim langaði mikið að koma aftur. Þau voru sérstaklega ánægð með að hafa farið á Vestfirðina og sögðu að það hefði verið sérstök upplifun að sjá 17. júní hátíðarhöld.

Þegar ég hitti Bandaríkjamenn eins og Janni og Larry og eins og Christine vinkonu mína og fleiri bandaríska vini mína eins og Liz og Polly og suma af Könunum sem ég þekkti út í Englandi (en ekki alla), þá finnst mér illa vegið að Ameríkönum með því að segja að þeir séu upp til hópa háværir og heimskir. Reynar kenndi ég Larry og Janni að segja hálfviti og fáviti á íslensku. En þau er vel menntuð, vel lesin og víðsýnt fólk sem var afar gaman af spjalla við og finna hverju mikið þau höfðu lært um land og þjóð.

Það er nauðsynlegt fyrir sálartetrið að hitta skemmtilegt fólk af og til.

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega;
auðigur þóttumk,
er eg annan fann,
maður er manns gaman.

Farið að förlast

Ég var með svo æðislegan póst í huganum þegar ég settist niður til að skrifa en eins og svo oft áður þá er það bara gleymt núna. Reyndar get ég sagt ykkur frá því að ég er búin að setja nýjar myndir inn á Flickrið. Nokkrar af Gíslínu og Hauki Þór og svo myndir af hænuungunum sem gistu hérna í fyrri nótt og eru núna komnir til Vopnafjarðar. Þeir voru nú voðalega mikil krútt þótt að þeir hefðu vakið mig klukkan fimm að morgni.

Jú, nú man ég hvað ég ætlaði að skrifa um.

Ég fór að segja mömmu frá einum lögmanninum sem kæmi stundum í þinghöld og væri gamall skólafélagi minn. Sem var svo til þess að ég náði í Roðrullu sem var símaskráin í Hagaskóla. Ég á ennþá skránna úr 10. bekk. Ég renni augunum yfir 10. bekkinn og það eru alltof margir þar sem ég man bara ekki hverjir eru. Og þó nokkrir sem ég er viss um að ég sé að rugla saman við einhverja aðra. Mér finnst þetta ekki nógu gott. Það eru að vísu 12 ár síðan ég var í Hagaskóla og það voru um 200 manns í árganginum en  samt finnst mér asnalega að vera búin að gleyma svona mörgum.

Previous Older Entries