Ræmur um unglingsárin

Póstaði ég seinast í maí? Ég held það og það er komin ágúst. Ég komin aftur til Reykjavíkur og flutt í Sörlaskjólið auk þess að bíða eftir því að finna vinnu við hæfi. Ef ekki, þá er ég víst á leiðinni í háskólann.

En ég nenni ekki að tala um það.

John karlinn Hughes var að deyja. Svona fyrir þá sem ekki þekkja til, þá gerði hann myndir á borð við Home Alone og svo var hann ábyrgur fyrir kvikmyndaferli Molly Ringwald og frasanum „Anyone? Anyone? Bueller?“ (þó svo ég held að þetta hafi ekki verið orðað nákvæmlega svona í Ferris Bueller’s Day Off).

Hvað um það, fólk talar um að hann hafi náð anda unglingsáranna vel í sínum bíómyndum. Ja, ég veit ekki hver upplifði unglingsár sín eins og John Hughes mynd en það var sannarlega ekki ég. Mér fannst t.d. hin margrómaða Breakfast Club vera hálfgerð froða en kannski hefur það eitthvað með það að gera að ég sá þá mynd ekki fyrr en ég var búin að sjá þátt í fyrstu seríu af Dawson’s Creek sem vísaði mikið í Breakfast Club.

Nei, þær eru ekki margar amerísku unglingamyndirnar sem líkjast því sem maður upplifði sjálfur sem unglingur. Þær eru ekki kannski allar alslæmar en hversu mikið sem ég held upp á Dazed and Confused (leikstýrð af Richard Linklater), þá finnst mér hún ekkert lýsa því sem ég upplifði sem unglingur.

Góðu og raunsönnu unglingamyndirnar koma nefnilega frá Svíþjóð. Það þekkja margir til Fucking Åmål, kannski ekki jafnmargir sem þekkja til Hip Hip Hora! en sú mynd er feykilega góð. Ég reyndar efast um að Ameríkanar myndu höndla þessa mynd. Hún var víst bönnuð undir 18 í Bretlandi og er samt um 13-14 ára krakka. Heh, Bretar. Ég horfði nú á Skins sem fjallar um unglinga á svipaðan hátt (reyndar örlítið meira um staðalímyndir þar).

Auglýsingar

Með dót og drasl á Akureyri

Eins og ég sagði í síðustu færslu, ég er alltaf að skilja betur og betur af hverju foreldrar mínir héldu sig á sömu þúfunni lengi, lengi. Mikið djöfuls puð er þetta.

Ferðin norður í gær gekk vonum framar og það gekk líka vel að afferma bílinn. Toyotan stóð sig mjög vel sem flutningabíll enda var afar vel raðað í hana þökk sé systur minni og mági. Ég hef svo verið að koma mér fyrir bæði í gær og í dag. Verslaði svolítið í dag en alls ekkert allt sem mig vantar. En ég get sagt ykkur að það er fullt af búðum hérna á Akureyri. Það er sko hægt að versla ýmislegt um allan bæ.

Núna er ég með stofuna mína fulla af hlutum sem á eftir að klára að koma saman. Næstum búin að setja saman sjónvarpsskápinn, ég á bara eftir að fá lánað stjörnuskrúfjárn hjá þeim á efri hæðinni til að festa hjólin undir hann og svo er að tengja sjónvarpið og DVD spilarann og þá er það allt komið. Svo keypti ég skrifborðsstól en ég veit ekki alveg hvað ég á að gera vegna þess að ég sé ekki alveg hvernig hjólin eiga að koma undir. Það er nefnilega eins og leiðbeiningarnar geri ráð fyrir hjólin séu áföst á fætinum. En þau eru það ekki og það er enginn skrúfgangur svo ekki á að skrúfa þau í fótinn. Kannski ég verði bara að hringja í Rúmfó og kvarta eða eitthvað.

Annars er íbúðin sæt og fín og voða björt. Svona fyrir utan það að ég vil hafa dregið niður í stofunni en NB ég hef alið næstum allan minn aldur á þriðju hæð og er ekki alveg búin að venja þessu að hafa fólk gangandi fram hjá glugganum mínum.

Bókafíkill flytur

Ég er alltaf farin að skilja betur og betur hvers vegna þau gömlu héldu sig á sömu þúfunni þrátt fyrir að mér þætti það alveg ægilega leiðinlegt þegar ég var ellefu ára eða svo. Það er nefnilega svo ótrúlega leiðinlegt að pakka.

Þegar ég fór til Englands, varð ég að skera svo við nögl þar sem ég tók með mér, að það var ekkert flóknara eða meira en að pakka fyrir utanlandsferð. (Allavega svona í minningunni).

Svo stend ég frammi fyrir því að koma öllu draslinu í bílinn minn sem er ekki beint gerður fyrir flutninga. Úff, úff. Og samt sér ekki högg á vatni með bækurnar mínar t.d. Mér dettur nefnilega ekki í hug að taka þær allar með mér, svona með tilliti til þess að kjallaraíbúðin sem ég mun búa í Akureyri, er ekki sérstaklega stór. Ég er heldur ekki viss um hvað ég ætti að gera við megnið af þeim, sérstaklega þar sem ég á margar bækur sem ég hef varla litið í. Stundum óska ég þess að BookCrossing væri stærra fyrirbæri á Íslandi eða kannski hef ég bara ekki komið á staðina þar sem það væri heppilegt að skilja bók eftir í þeim tilgangi að einhvern annar taki hana upp og lesi. Þetta er örugglega vegna þess hversu dýrar bækur eru á Íslandi, allavega þær sem koma út á íslensku.

Svo hef ég pínu áhyggjur af því að búa í náinni göngufjarlægð frá Eymundsson og svo líka fornbókabúð þarna á Akureyri.