Japönsk hughrif

Á þessari stundu veit ég ekki hvernig ferðasagan mín á eftir að vera nema ég get sagt að það var heitt og rakt og ég var alltaf að dotta í lestinni. Reyndar er ég búin að upplifa ýmislegt. Síðastliðna þrjá daga hef ég verið að fara inn í Tokyo að skoða ýmislegt þar. Hef því miður verið afskaplega ódugleg að taka myndir en kannski kemur það. Vandamálið er kannski að ég veit ekki alveg hvað ég á að horfa á því hið sjónræna áreiti er svo mikið. Og nota bene, í gærkvöldi þegar við vorum að hlaupa í gegnum Shinjuku, var nú ekki kveikt á hverju auglýsingaspjaldi eða kastara. Það er nefnilega verið að spara rafmagn í Japan og þar af leiðinni hin rómaða ljósadýrð Tokyo ekki söm við sig.

Ég skoðaði Edo-Tokyo safnið sem er ansi merkilegt og vel heppnað og svo heimsótti ég National Art Center í Tokyo en þar var sýning á verkum impressjónista og póst-impressjónista. Alveg týpískt af mér að fara að skoða vestræna list í Japan.

Í gærkvöldi var ég á rosalega fínu hefðbundnu japönsku veitingahúsi. Sem betur fer þurftum við ekki að krjúpa við borðið (það var svona gryfja fyrir fæturnar undir borðinu). En já, þarna var boðið upp á ýmislegt eins og steiktan kjálka af túnfiski sem lyktaði alveg hrikalega en var frekar góður á bragðið. Þá var líka boðið upp á sashimi og ég komst að því að mér þykir fiskur sem heitir buri á japönsku alveg ferlega góður sem sashimi. En ég held að mér hafi fundist matcha aisu kurimu best, þ.e.a.s. ís með bragði af grænu tei.

Annars held ég að mér finnist einna skemmtilegast hér í Japan að skoða fólk. Ekki endilega vegna þess hve mér þykir Japanir furðulegir heldur vegna þess að það eru alltaf einhverjir sem minna mig á fólk heima. Mamma á t.d. sér marga japanska tvífara.

Auglýsingar