Tilraun til að létta andrúmsloftið

Hverjum langar ekki að fá smá breik frá kreppuumræðunni og öðru slíku? Eða þá bandarísku forsetakosningunum?

Þess vegna ætti fólk að létta sína lund með því að líta á þessa stórskemmtilegu hlekki.

Fyrst er að nefna Cakewrecks, blogg þar sem kökuskreytingarslysum eru gerð skil.

Maður hefur verið grafin í gröfum allt sitt líf en hérna er síða sem gerir gröf skemmtileg.

Internetið er fullt af videóum en þetta hérna um góðu lögguna og barnalögguna er með þeim betri.

Og fyrir þá sem vilja gera grín að þessu öllu saman, kreppunni og hinu, þá skulu þeir hinir sömu ekki leita lengra en á Baggalút. Ég dýrka þjóðbloggin.

Ef ykkur hefur ekki stokkið bros eftir að hafa skoðað þessa hlekki, þá get ég lítið gert fyrir ykkur.

Auglýsingar

Um blogg, nafnleysi og nethegðun

Ég horfði á innslag í Íslandi í dag á Stöð tvö áðan um nafnlausa bloggara, ábyrgð og hegðun þeirra í sambandi við nafnlaus skrif sem höfðu birst á Moggablogginu um sóknarprestinn á Akureyri.

Í innslaginu var eitthvað imprað því hvort að það ætti að setja lög yfir nafnlausa bloggara og netverja og hvort að það væri að hefta málfrelsi eða hvort að það væri eðlileg kurteisi að koma fram undir nafni á netinu.

Persónulega þá held ég að fólk ætti að vera í fullu frelsi að skapa sér þá netpersónu og/eða nánd sem það vill svo lengi sem það brjóti ekki lög.

En geta lög náð yfir nafnleysinga? Flestar fyrirtæki sem rekar bloggþjónustur, t.d. WordPress sem ég er að nota núna, hafa ákveðnar reglur, í skilmálum WordPress segir m.a.

the Content is not obscene, libelous or defamatory (more info on what that means), hateful or racially or ethnically objectionable, and does not violate the privacy or publicity rights of any third party;

Telji maður eitthvað vera meiðyrði, þá skal hinn sami tilkynna það til vefstjóra WordPress og þeir geta gert viðeigandi ráðstafanir eins og loka viðkomandi bloggi.

Þetta sama er náttúrulega hægt á Moggablogginu sem styrinn stendur um núna. Mjög svipaða klausu má finna í skilmálum þeirra. Nú veit ég ekki hvort að það sé nýlega tilkomið. Þar er líka boðið upp á að fólk hafi samband við vefstjóra ef manni finnst einhver vera brjóta skilmálana.

En Moggabloggið er svolítið ólíkt WordPresskerfinu. Hérna er maður eyland og maður getur svo sem verið það á Moggablogginu en það er mjög auðvelt að gera sig afar sýnilegan með því að gera athugasemdir við fréttir á vefnum eða finna vinsælustu bloggin og skilja eftir athugasemdir þar. Á margan hátt líkist Moggabloggskerfið öðru bloggkerfi sem ég þekki mjög vel, Livejournal. Þar sem það er svona samfélagskerfi – þá hefur verið komið á sjálfboðaliðskerfi sem fjallar um umkvartanir fólks um innihald annarra. Þeir sem bjóða sig fram, eru sjálfir notendur þjónustunnar og eru henni kunnugir.

Kannski er það eitthvað sem hugnaðist bæði þeim sem vilja koma böndum yfir nafnleysingjana og þá sem finnast að boð og bönn gangist ekki.

Reyndar er eitt sem hefur gangnast vel gegn nafnleysingjunum sem standa í skítkasti  – hvernig sem maður skilgreinir þá. Bara látast sem maður sjái þá ekki – og kannski dunda sér við skoða Flame Warrior listann og finna rétta skilgreiningu fyrir þá.

Það er reyndar svolítið leiðinlegt hversu margir eru bara Jerk.

Um merkilegt fólk og fleira

Maður þarf að fara að uppfæra þetta oftar. Það er svo margt sem mig langar að tala um.

Skólinn er nú eitt en ég veit ekki hversu áhugavert sé að heyra um hann. Ég held að ég geymi það þangað til að ég verð byrjuð í æfingakennslunni, þ.e.a.s. ef ég fæ einhvern til að kenna hjá. Þessir kennarar vilja bara ekki svara tölvupóstum. (Á meðan ég var að skrifa þessa færslu þá kom tölvupóstur frá einum af þeim sem ég hafði samband við. Sá kenndi mér þegar ég var í MH.)

Mér var nú ansi brugðið þegar ég frétti í gærkvöldi að Heath Ledger væri látinn. Einn af mínum uppáhaldsleikurum og jafngamall mér. Frammistaða hans í Brokeback Mountain (sem er ein besta kvikmynd sem gerð hefur verið) var betri en orð fá lýst. Ég mæli svo sannarlega með henni. Einnig held ég mikið upp á aðrar myndir með honum eins og Knight’s Tale, 10 Things I Hate About You og Ned Kelly. Ég held að það megi segja að þetta sé kvikmyndaheiminum og kvikmyndaunnendum harmdauði, hvað þá fjölskyldu hans.

 En svo ég taki upp léttara tal, The Daily Show sem heitir A Daily Show á meðan handritshöfundaverkfallinu stendur,  sýndi í gærkvöldi fyrri hlutann af tveimur um þátttöku Íslendinga í Írak. Þeim sem leikur forvitinn að sjá þetta, smellið hér og veljið „Operation Deserter Storm“ af sleðalistanum í miðjunni. Ef að þið eruð að lesa þetta eitthvað eftir 23. janúar, þá mæli ég með að þið smellið þar sem segir videos í stikunni þarna upp og finnið myndbandið þar. Gaman var að sjá Stefán Pálsson í viðtali þarna.

Og talandi um gamla Gettu Betur keppendur og dómara, ég horfði á Ármann Jakobsson í Sunndagskastljósinu hjá Evu Maríu Jónsdóttir. Það fannst mér gott viðtal enda finnst mér heilmikið til Ármanns koma. Hann á m.a. heiðurinn að hafa skrifað afarskemmtilega en umfram allt góða fræðibók um konungasögu sem heitir Í leit að konungi. En hann sagði ýmislegt merkilegt. Eins og þegar hann lýsti lífstíl sínum og hvernig hann lætur ekki toga sig í allar áttir. Og ég gat verið sammála honum með að svara spurningum í Gettu Betur. Mér fannst t.d. ég geta svarað miklu meira þegar ég var undir pressu og að keppa en ég get nokkurn tímann sitjandi heima í stofu að horfa á spurningakeppni. Það kannski útskýrir að hluta til minni oft á tíðum takmarkaða áhuga á að horfa á spurningakeppnir í sjónvarpinu. Ég geri það oft eingöngu af skyldurækni.

Luncheon meat

Ég þurfti að eyða einni færslunni á þessu bloggi í gær eða fyrradag. Ég var að fá u.þ.b. hundruðustu tilkynninguna um svona „spam“ komment á henni þrátt fyrir að ég hefði skrifað hana fyrir meira en ári síðan. Það nefnilega loksins rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði verið að tala um auglýsingar um stinningarlyf sem að gengu þá í fjölmiðlunum og nefndi á nafn tvær þekktar tegundir stinningarlyfja. Það hefur komið „spam“ botunum til og þeir haldið að ég vildi vita um bestu dílana á slíkum lyfjum.

Mér hefur fundist „spam“ frekar fyndið fyrirbæri þó hvimleitt sé (reyndar mæli ég með gmail til að losna við mesta ruslið, spam filterinn hjá þeim virkar og hann tekur ekk óvart alvörutölvupóstinn). Maður veltir fyrir sér hverjir í ansk. kaupa sér stinningarlyf og annað slíkt í gegnum svona auglýsingar.  Ég get bara ekki trúað það sé til í alvörunni fólk sem hugsar „hey, þetta hlýtur að virka fyrir sprellann minn!“ þegar það sér subjectlínuna: Having a large and nice member is affordable now (eða þaðan af verri fyrirsagnir).

Lífið, Noregur og blogg

Ég get ekki kvartað undan lognmollu í lífi mínu eins og sakir standa. Ekki nóg með það að ég sé í fullri vinnu heldur er ég líka komin í fjarnám í Kennaraháskólanum í kennsluréttindum. Ég tek reyndar bara 5 einingar núna á haustönn en það verður sko nóg að gera – og maður þarf að vera hugmyndaríkur. Og alltaf þegar slíkar kröfur eru gerðar, verð ég hryllilega andlaus. Ég á t.d. að skila Power point fyrirlestri sem á að vera eins og stuttur fyrirlestur fyrir kennslustund, eftir tæpan mánuð og mér dettur ekkert í hug.

Svo er nóg að gera fyrir utan það. Ég er að fara í fjögra daga námsferð til Noregs í næstu viku með vinnunni, ferðin er á vegum Dómstólaráðs. Ég veit reyndar voðalega lítið hvað við verðum að gera þarna – dagskráin er alls ekkert þétt skipuð. Eitthvað á föstudeginum og laugardeginum en þar sem við komum snemma á fimmtudaginn og förum seint á sunnudaginn, höfum við ansi rúman tíma til að gera hitt og þetta.

Svo ég snúi mér að einhverju öðru en sjálfri mér.

Ég kíkti aðeins í nýjasta Mannlífið (þessu með skipstjóranum sem bjargaði flóttamönnunum í Miðjarðarhafinu) og þá sérstaklega greinina með bestu og verstu bloggara landsins og mikið var ég sammála álitsgjöfunum þar eða svona að mestu leyti.

Hef kannski ekki alveg alltaf húmor fyrir Mengellu (sem var #1) en það er mitt vandamál. Stebbi Páls er jafn góður og nafni hans Fr. á moggablogginu er leiðinlegur. Enda var stebbbifr valinn versti bloggarinn og honum er best lýst í þessari færslu Hnakkusar (sem var auðvitað einn af þeim bestu). Og svo var Ármann Jakobs á listanum sem mér persónulega finnst vera besti bloggarinn nefndur í greininni (þó svo hann kalli sig ekki bloggara). 😀

FWD:

Systir mín var að kvarta yfir því að ég væri hætt að blogga hérna. Það hefur verið einhver skriftardeifð í mér en ef að þið getið ekki fengið nóg, þá skuluð þið endilega kíkja á MySpace síðuna mína (hlekkur hérna til hliðar). Ég er stundum að setja einhverja vitleysu inn á bloggið þar.

 En reyndar hef ég eitthvað til að blogga um núna og nei, það er ekki Baugsmálið. Bendi frekar á opnuna í Mogganum eða þá tilvitnirnar í Fréttablaðinu – get ímyndað mér að þær verði fleiri. Arngrímur á eftir eitthvað fleira hnyttið, svo mikið veit ég.

Nei, mitt umfjöllunarefni í dag, er svona áframsendir tölvupóstar. Þið þekkið þá. Stundum er það brandari, stundum eru það myndir eða PowerPoint glærur um það sé „Alþjóðlega Konuvikan“ og maður eigi að senda öllum fallegum konum í vinahóp sínum þetta o.s.fv. Mér er frekar illa við svona framsenda tölvupósta þar sem ég „verð að senda póstinn 10 manns innan 10 mínútna annars lifi ég við 10 ára ógæfu“. Það er ekkert gaman að fá svoleiðið í hólfið sitt. Nóg er nú af draslinu þar fyrir. Mér finnast fyndnar myndir og hjartnæm skilboð allt í lagi en get alveg verið án þeirra.

En verstir þykja mér platpóstarnir. Ég hellti mér einhvern tímann yfir títtnefnda systur mína þegar hún áframsendi mér póst sem var að vara konur við að óprúttnir menn væru farnir að setja hestastera út í drykki hjá konum svo þær myndu missa meðvitund og nauðga þeim svo en þær sætu svo uppi með það að vera ófrjóar allt sitt líf eftir hestasterana. Ég veit ekki með ykkur en um leið og ég las þetta, hugsaði ég: „Djöfuls rugl.“ Og fór og fletti upp á einni bestu vefsíðu í heimi, snopes.com. Bara snilld þessi síða. Þarna er nefnilega hægt að fletta upp alls konar flökkusögum og götufróðleik svokölluðum til staðreyna hann. Elvis dó t.d. ekki af því að vera með garnirnar fullar af 60 (!) kg af saur eins og Jónína Ben hélt fram í Kastljósi um daginn. Sértu með mikið yfir 500 g af saur í þörmunum, er það afar kvalafullt fyrir mann. 60 kg er óhugsandi. Og þetta gat ég séð á Snopes. Snilldin er líka sú að þeir leita sér heimilda til sanna og afsanna hluti.

En ástæðan fyrir því að þetta liggur mér svo mikið á hjarta nákvæmlega núna, er það að ég fékk sendan svona áframsendan tölvupóst í dag í vinnunni frá einhverri konu sem ég veit engin deili á önnur en það að hún vinnur hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Henni hafði nefnilega dottið í hug að senda þetta á tölvupóstafangahóp sem heitir „Allir héraðsdómar“ (sendist þarf af leiðandi á alla starfsmenn héraðsdóma landsins). Ég viðurkenni það, ég hálfmissti mig, sendi konunni svar til baka um það að þetta væri plat og hún væri að skapa óþarfa álag á póstþjóna.

Ég veit ekki með ykkur en ég ætla í framtíðinni að senda öllum þeim sem senda mér svona platpóst svar til baka með hlekk á viðkomandi grein á Snopes. Kannski fer fólk aðeins að nota þessa almennu skynsemi sem maður ætlast til að það hafi.