Bókatíðindi

Ég þyrfti að koma mér upp reglulegri áminningu um að uppfæra þetta blessaða blogg. Þó stundum mér finnist ég ekkert hafa að segja þannig séð. Ég hef bara verið á kafi í undirbúningi fyrir kennsluna og svona.

Reyndar brá ég mér til Reykjavíkur um síðustu helgi til að kíkja á litlu stelpuna hennar Hebu sem er svakalega sæt og fín. Ég tók meira að segja myndir en þarf að muna að hlaða þeim inn.

Annars þegar ég hef ekki verið á kafi að undirbúa sögukennsluna, þá hef ég verið að lesa stórskemmtilegar bækur í bókaflokki sem heitir Temeraire. Þeir sem hafa smá þekkingu í listasögu, þekkja mynd Turners, The Fighting Temeraire. Temeraire í bókunum er hinsvegar dreki en hann berst í Napóleonstyrjöldunum. Eiginlega eru bæknurnar sögulegar skáldsögur með drekum og það verður að segja eins og er, höfundurinn er það fær að það gengur fullkomlega upp.

Ég var eiginlega að gefast upp vegna þess að ég hafði eiginlega ekki lesið góða bók í langan tíma áður ég byrjaði að lesa Temeraire. Sumt var nú sjálfri mér að kenna eins og lesa Twilight fjórleikinn (sem verður nú víst gefin út í íslenskri þýðingu). En ég reyndi til dæmis að lesa Laxveiðar í Jemen sem hafði fengið góða dóma og hún var hundleiðinleg. Það er ekkert gaman að lesa hundleiðinlegar bækur.

Um leið og ég skrifaði þetta, fékk ég óstjórnlega löngun til að lesa Elísarbækurnar. Verð að muna eftir þeim næst þegar ég á leið um Amtsbókasafnið.

Auglýsingar

Af menningarástandi

Ég verð ekki sú fyrsta til þess að logga mig inn á bloggsíðu mína til að leggja orð í belg um þá ályktun um menningarmál sem var samþykkt á síðasta þing Sambandi Ungra Sjálfstæðismanna. (Sjá nánar hér á bls. 15 og 16).

Ég nenni nú ekkert að hafa nákvæmlega eftir orð þeirra, kannski vegna þess að mér finnst þessi ályktun svo yfirmáta heimskuleg. Einna helst sýnist mér að þau hafi aldrei nokkrun tímann tekið eftir í íslensku- og sögutímum í menntaskóla, hvað þá í grunnskóla. Eða kannski fíla þau einsleitni og lágkúru. Þau geta þá bara skreytt veggina hjá sér með plakötum af Nylon og uppáhaldsfótboltaliðinu, og hlustað á Skítamóral. Þau geta gleymt því að sjá nokkurn tímann íslenska kvikmynd aftur og lesefnið – ja, þau eru heppin að sæmilegur rithöfundur eins og Arnaldur Indriðason sé í tísku núna. Einu sinni voru það nú Rauða serían og Birgitta H. Halldórsdóttir það vinsælasta.

Kannski er það til of miklis ætlast af fólki sem les ekkert annað en verðbréfaportfólíurnar sínar og fylgist ekki með öðru en gengi og verðbréfavísitölum.

Ha, ég pirruð út í nýfrjálshyggju? Hvernig datt ykkur það í hug?

Syng minn söng

Það er gott að vita að það nennir einhver að lesa þetta.

Kannski er það þess vegna sem ég ætla að taka upp léttara hjal en í seinustu færslu.

Það eru blessuðu söngkeppnirnar sem eru núna aðalmálið.

Verð að segja að ég er miklu meira spennt fyrir Idolinu en Eurovision. Hef sterkari skoðanir og það allt. Eftir tvo fyrstu Smáralindarþættina, hélt ég að íslenska þjóðin væri búin að missa vitið með að greiða ekki nóg atkvæði með Margréti og Angelu til að halda þeim inni í keppninni.

Ég viðurkenni það strax að mér finnist Ragnheiður Sara vera best, þó svo það megi segja að Elfa hafi verið best í seinasta þætti en Ragnheiður Sara hef svo langsamlegasta bestu tæknina og svo hefur hún gullfallega rödd. Ekki það þau níu sem eru eftir eiga það eiginlega öll skilið að vera þarna. Þó svo Eiríkur sé líklegast sísti söngvarinn af þeim, þá gerir hann eins vel og hann getur og það ber svo sannaralega að virða það.

Akkurat núna eru mestu vonbrigðin skipuleggjendur keppnirnar með þemavalið. Hvað er í gangi að setja diskóþemað strax á eftir hippaþemanu og svo fæðingarársþemanu? Plús veit ég ekki alveg hvað Idol-skipuleggjendurnir hér (og úti) eru að yfirleitt að pæla með þessu diskóþema? Sé einhver tónlist búin til í stúdíói, þá er það diskó með öllum hljóðblöndunum og ofanítekningunum í trökkin og það allt. Plús ef þetta á að hljóma eitthvað skárr en karaoke live, þá þarf live band, ekki bara playback.

Persónulega hefði ég viljað sjá einhvers konar íslenskt þema næst. Þau þurfa að fara syngja íslensk lög. Búin að fá nóg af lélegum framburði og því öllu.

Hvað varðar Eurovision, þá læt ég þá keppni í léttu rúmi liggja. Það eru bara tvö lög í keppninni sem eru eitthvað yfir meðalmennsku hvað varðar svona alvöru tónsmíðar og það eru lögin sem Trausti Bjarnason samdi og Regína Ósk og Guðrún Árný sungu. Kannski að því að þau lög reyndu á þær stórgóðu söngkonur. Það er nefnilega svolítið annað að heyra í söngkonum sem þeim sem hafa raddir sem spanna stórt tónsvið og svo raddlausa grepið hana Birgittu Haukdal. Hún er sjarmerandi, ég gef henni það en hún væri engan veginn fræg ef hún venjulega væri ekki að flytja lög eftir snillinginn hann Vigga í Írafár.

Þetta sagt, þá eiginlega held ég með Silvíu Nótt þó svo ég hafi venjulega ekki haft það mikinn húmor fyrir henni. En í eins kitsch keppni og Eurovision, virkar bara stórvel að hafa fyndið atriði. Ég meina, það muna allir eftir Guido hinum þýska og svo Austurríkismanninum sem hafði pappahljómsveit á sviðinu. Silvía Nótt er flottara atriði en þeir tveir, með sitt gervi og svo dansarana. Björn Thors er sko vanur að dansa í vinningsatriðum í söngvakeppnum (dansaði þegar MH vann söngvakeppni framhaldsskólana 1997). Svo er hún Ágústa Eva bara hörkusöngkona og betri en margir af söngvurnum sem sungu í þessari undankeppni Eurovision.

Bara spurning hvort hægt sé að þýða textann hennar á meiri ensku en hann er þegar fyrir. 🙂

Nú lágu Danir í því

Ein helsta fréttin þessa dagana er af striðu sambandi Dana (og Norðmanna) við Mið-Austurlönd vegna þess að það birtist skopmynd af Múhammeð spámanni í Jótlandspóstinum.

Ég býst við því að Jótlandspósturinn hafi ekki haft neitt illt í hyggju með myndbirtingunni en hins vegar finnst mér fáfræði fjölmiðla mikil, bæði hérna heima og út í Danmörku. Miðað við hvað Mið-Austurlönd eru mikið í fréttum og það að Íslam er sú trúarhreyfing í heiminum sem vex hraðast, þá finnst mér að fréttamenn og stjórnmálamennsem taka sig alvarlega, ættu að vita að Múhammeð fyrirbað það að gerðar yrðu myndir af honum sem og myndir af Allah, m.a. til þess að forðast skurðgoðadýrkun og í því liggur líklega aðalástæða reiði múslima.
Ég viðurkenni fúslega að hérna er um að ræða árekstra á gildum. Friðhelgi trúarbragða og svo mál- og ritfrelsi. Hvað á svo að virða?

Að sumu leyti má líkja þessu við fjaðrafokið vegna Kristsímyndar sem listmaðurinn Andres Serrano gerði þar sem Kristur á krossinum hafi verið dýft í þvag listamannsins og svo líka Maríu-myndar Chris Ofili, gerðar úr m.a. fílaskít og skreytt úrklippum af kynfærum kvenna úr klámblöðum. Þessar myndir fóru vitaskuld fyrir brjóstið á mörgum en var það ekki réttur listamanna að tjá sig á þann hátt sem þeir vildu?

Eins öfugsnúið og það virðist verða, þá gengur betur nota tjáningarfrelsi að verja gerðir listamannana þar sem þeir voru vísvitandi að ögra með myndum sínum. Ég get ekki betur séð en að skopmyndagerð Jótlandspóstsins hafi ekki verið til að ögra vísvitandi heldur eins og pólítískum skopmyndum er oftast nær ætlað, að líta á málin út frá kaldhæðnu ljósi.

Kannski er spurningin hvort að hægt sé að skýla fáfræði á bak við tjáningarfrelsi.