Að segja eitthvað

Stundum langar mig að rífast. Stundum langar mig að segja eitthvað. En ég lærði fyrir löngu að yfirleitt er best að þegja þó svo maður sé handviss um að maður viti betur. Ég þegi ekki alltaf og það hefur alveg hvinið í mér við fólk þegar það talar niðrandi um samkynhneigða eða er með áberandi kynþáttafordóma. Ég læt yfirleitt xenófóbíuna vera enda yrði maður fljótt vitlaus ef maður ætlaði eitthvað reyna skamma fólk fyrir slíkt.

En það er bara svo ótrúlega oft sem ég þarf að sitja á mér. Kannski vegna þess að ég er eins og manneskjan sem var að skrifa í Stúdentablaðið sem kom með Fréttablaðinu í dag. Ég held að ég sé óumburðarlynd gagnvart óumburðarlyndi. Óumburðarlyndi og fordómar eru svo mikið eitur í mínum beinum að mig langar oft að tukta fólk til sem hefur slíkt uppi.  Það vekur hjá mér líkamleg óþægindi – ég finn hverning boðefnin þjóta í heilanum á mér og hvernig nýrnahetturnar hamast við að dæla út hormónum.

En kannski vegna þess að ég kemst í svona líkamlegan ham, þá hef ég frekar stjórn á þessu og reyni sleppa því að lenda í rifildi.

En spurningin er auðvitað hvort að maður eigi ekki segja eitthvað. Því maður hefur rétt fyrir sér. 🙂

Auglýsingar

Réttindi samkynhneigðra

Ég held að það sé ekki hægt að gera annað en fagna þeirri leiðréttingu á grundvallarmannréttindum sem gerð verður þann 27. þessa mánaðar. (Sjá nánar hér).

Auðvitað vil ég sjá þetta ná lengra eins og það að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Hvað hafa andmælendur þess að styðjast við? Biblíuna? 

Ég nenni ekki að fara út í trúfræðilegar og sagnfræðilegar pælingar hér en það eru bara ekki allir kristnir og hér ríkir trúfrelsi. Og svo er hjónabandið tilkomið sem veraldleg stofnun vegna eignaréttar. 

Reynar nenni ég ekki að fara sjálf út í þá sálma og linka frekar á þetta frábæra clip úr The Daily Show, þar sem Jon Steward hrekur ofan í einhvern kappa öll hans rök um að hjónaband samkynhneigðra séu fjölskyldunni hættuleg. Best er að hann reynir að benda á einhver "vandamál" sem þær þjóðir sem hafa leyft hjónabönd samkynhneigðra eigi að glíma við. Hvað sem gæti verið að í Noregi eða Svíþjóð, ja, líttu þér nær manni. Ameríka er í miklu meiri vanda en þessar þjóðir.