Tilraun til að létta andrúmsloftið

Hverjum langar ekki að fá smá breik frá kreppuumræðunni og öðru slíku? Eða þá bandarísku forsetakosningunum?

Þess vegna ætti fólk að létta sína lund með því að líta á þessa stórskemmtilegu hlekki.

Fyrst er að nefna Cakewrecks, blogg þar sem kökuskreytingarslysum eru gerð skil.

Maður hefur verið grafin í gröfum allt sitt líf en hérna er síða sem gerir gröf skemmtileg.

Internetið er fullt af videóum en þetta hérna um góðu lögguna og barnalögguna er með þeim betri.

Og fyrir þá sem vilja gera grín að þessu öllu saman, kreppunni og hinu, þá skulu þeir hinir sömu ekki leita lengra en á Baggalút. Ég dýrka þjóðbloggin.

Ef ykkur hefur ekki stokkið bros eftir að hafa skoðað þessa hlekki, þá get ég lítið gert fyrir ykkur.

Auglýsingar

Nýju skemmtistaðirnir mínir

Hér er ég og held bara áfram að kenna menntskælingum sögu þrátt fyrir að það virðist að við eigum eftir að enda aftur á járnöld. Ég segi ekki steinöld því við hljótum að finna leiðir til að brúka málminn í öllum bílunum sem við eigum ekki eftir að geta notað þegar við erum búin með olíubrigðirnar.

Allt í lagt. Þetta er kannski ekki tíminn fyrir svona gálgahúmor.

Það er hressandi að sitja í „leðrinu“ í löngu frímínútum. „Leðrið“ er partur af kennarastofunni hérna í MA og svolítið stássstofuleg með Kjarval, Jón Þorleifs og Gunnlaug Blöndal á veggjunum og þetta fína græna betrekk á veggjunum. Pólítíkin er rædd þar í löngu frímínútum og að menntamannasið þá er þarna vinstri-sinnað fólk með þvottekta skoðanir á málunum. Það eru líka góðar umræður hinu megin við þilið í því sem ég held að heiti græna herbergið en þar ber kennsluna og slíkt meira á góma. Svo er það kaffihornið okkar þarna Undir bláhimni (vinnustofan sem ég er á heitir þessu skemmtilega nafni) en þar er líka margt skrafað.

Ætli ég hnuskist út á morgun og fari og eyði peningum í kreppunni? Ég þarf nefnilega að kaupa straujárn.

Bíbb, bíbb

 Þetta myndband er í tilefni þess að nú flauta allir bílar í miðbænum. Hitt er svo látið ósagt hvort þetta myndband sé sett hér til stuðnings þessum látum í miðbænum.

Að segja eitthvað

Stundum langar mig að rífast. Stundum langar mig að segja eitthvað. En ég lærði fyrir löngu að yfirleitt er best að þegja þó svo maður sé handviss um að maður viti betur. Ég þegi ekki alltaf og það hefur alveg hvinið í mér við fólk þegar það talar niðrandi um samkynhneigða eða er með áberandi kynþáttafordóma. Ég læt yfirleitt xenófóbíuna vera enda yrði maður fljótt vitlaus ef maður ætlaði eitthvað reyna skamma fólk fyrir slíkt.

En það er bara svo ótrúlega oft sem ég þarf að sitja á mér. Kannski vegna þess að ég er eins og manneskjan sem var að skrifa í Stúdentablaðið sem kom með Fréttablaðinu í dag. Ég held að ég sé óumburðarlynd gagnvart óumburðarlyndi. Óumburðarlyndi og fordómar eru svo mikið eitur í mínum beinum að mig langar oft að tukta fólk til sem hefur slíkt uppi.  Það vekur hjá mér líkamleg óþægindi – ég finn hverning boðefnin þjóta í heilanum á mér og hvernig nýrnahetturnar hamast við að dæla út hormónum.

En kannski vegna þess að ég kemst í svona líkamlegan ham, þá hef ég frekar stjórn á þessu og reyni sleppa því að lenda í rifildi.

En spurningin er auðvitað hvort að maður eigi ekki segja eitthvað. Því maður hefur rétt fyrir sér. 🙂

Út í búð

Ég er sérstök áhugamanneskja um góðar matvörubúðir.

Nú, hvað meina ég með því?

Mér finnst bara  ákaflega gaman að koma inn í matvörubúðir sem ég hef ekki komið í áður. T.d. í dag fór ég með mömmu í nýju Krónubúðina í Mosfellsbæ og varð afar hrifin. Hún var svo vel skipulögð, nægt vöruúrval og allar hillur og kistur fullar. Ólíkt huggulegra en t.d. Bónus út á Nesi. Mér finnst ekkert gaman að koma þangað, enda þá sjaldan sem ég þarf að gera innkaup, finn ég bara alls ekki allt sem mig vantar þar.

Að koma inn í nýju Krónubúðina minnti mig mikið á að fara í Asda út í Bretlandi. Reyndar voru fleiri deildir Asda, þar fengust föt o.fl.  Það var alltaf svo gaman að versla í matinn í Bretlandi þó svo að ég þyrfti alltaf að rogast með pokana langa vegu. Yfirleitt fór ég í Tesco Metro niður í bæ. Það var ekkert svakalega stórt Tesco en nægði yfirleitt fyrir flestum nauðsynjavörum og sitthverju ónauðsynlegu. Það var stutt á strætóstoppistöðina frá Tesco en svo þurfti maður að labba yfir næstum alla háskólalóðina til að komast í gamla góða Tyler Court frá háskólastoppistöðinni.

Stundum fórum við Romana labbandi niður Sainburys sem var rétt hjá ógeðslegu sundlauginni (kölluð svo eftir að Romana fékk eyrnasýkingu þar). Þetta var svona 10-15 mínútna labb svo það var ekkert yfirstíglegt fyrir að versla í svo flottri búð (hún var alveg geðveikt, sérstaklega frosnu tilbúnu máltíðirnar, víndeildin og bakaríið), ja, fyrir utan það að maður þurfti að labba upp Tyler Hill til að komast heim. Sú hæð var ansi skyld Hjartaáfallshæðinni í Brno.

Þannig það var bara skárra að geyma innkaupin þar til að maður fór niður í bæ sem var ansi oft og versla bara í Tesco enda var hún ódýrari og maður gat komist með vörurnar þaðan á jafnsléttu.

Svo var það litla búðin á háskólalóðinni sem gat alveg verið ágæt en maður stólaði ekki á að gera innkaupin þar. Helst keypti maður vatn og samlokur þar og kannski bjór þegar manni langaði í bjór.

Heh, allt í einu breytist þessi póstur í leyndan áróður fyrir því að selja vín í matvöruverslunum.  Reyndar er svolítið erfitt að sjá hvernig eigi að framkvæma það þar sem meirihluti afgreiðslufólk í matvörubúðum á Íslandi er langt undir lögaldri.

Velsældin er ekki öll tekin út með sældinni. 🙂

Tvær færslur á sama deginum!

Ég ætlaði ekki að skrifa aðra færslu strax en ég get bara ekki orða bundist.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Siv Friðleifsdóttir sé dottin út af þingi. Og í dag þegar ég var að keyra úr Smáralindinni (fór í snyrtivöruleiðangur þangað), sá ég flettispjald með auglýsingu þar sem Siv er í heitum faðmlögum við Samúel Örn Erlingsson.  Maður hefði haldið að þau hefðu betri hnöppun að hneppa en að leika í rómantískum gamanmyndum. Ég held að það auki ekki fylgi.

Eigum við að skjóta þá?

Jæja, þá ætla ég að fara ræða pólítísk málefni aftur. Og það auðvitað eitthvað eldfimt eins og hvalveiðar. En þar sem ég skrifaði þetta að megninu til annars staðar, þá gat ég alveg eins sett það hérna.

Ég hef margt að athuga við umræðuna um hvalveiðar, sérstaklega hversu huglægt umræðan virðist vera. Það helgast vísast til að þetta er tilfinningamál fyrir flesta hlutaðeigandi, hvort sem þeir eru með eða á móti. Enn fremur fljúga alhæfingarnar út um allt svo það er erfitt að henda reiður á staðreyndum, sérstaklega þar sem hvorug hliðin virðist leggja allar staðreyndir málsins á borðið.

Íslendingum mun aldrei takast að snúa almenningsálitinu varðandi hvalveiðar. Einfaldlega flestir þeir sem ekki tilheyra hvalveiðiþjóðum, álíta hvali vera gáfaðar skepnur, með vitsmuni á við manninn eða jafnvel gáfðri. Ég nefni sem dæmi: Star Trek IV The Journey Home. Ég er nokkuð viss að sú mynd og fleiri hlutir hafi mótað skoðanir flestra í Bandaríkjunum svona til að nefna eitthvað.

Svo við snúum okkur að vistfræðinni. Bæði skíðishvalir og þorsk- og ýsuseiði lifa á svifi en ég held að við mennirnir höfum meira með minnkun fiskstofnanna að gera en það að hvalirnir hafi étið allt svifið. Ég held að ofveiði hafi miklu meira að segja varðandi stærð fiskistofnanna og loftslagsbreytingar hafa meiri áhrif á fjölda svifs en át hvalanna. Lögmálið í almennri vistfræði kveður á um það að séu breytingar á einum hlekk í vistkeðjunni, hafi það áhrif á hina hlekkina. Svo að fækkun svifs hefur ekki bara áhrif á stærð fiskistofna og það að sjóflugum fækki og/eða leiti sér ætis inn til lands, heldur einnig þá ætti að hvölunum að fækka. Sama hvað hefur áhrif á fjölda svifs.

Svo er það bara staðreynd að ég hef ekki mikla trú á þeim sem eru talsmenn hvalveiða hérna heima. Kristján Loftsson hljómar alltaf eins og geðsjúklingur þegar hann talar í sjónvarpinu og er þvílíkt viðkvæmur fyrir gagnrýni að manni bara blöskrar.  (Ég held að Spaugstofan hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir sýnu Kristján ráða Ahab skipstjóra til sín). Enn fremur hefur LÍÚ alltaf hagað sér eins og eiginhagsmunasamstök af verstu gerð.

Stundum finnst mér ég botna hvorki upp né í niður í þessu öllu. Ég get séð rökin fyrir vísindaveiðinum en veiðar í atvinnuskyni munu alltaf verða of umdeildar til standa undir sér. Sama hversu mikið Japanir geta étið af hvalkjöti.

Previous Older Entries