Ræmur um unglingsárin

Póstaði ég seinast í maí? Ég held það og það er komin ágúst. Ég komin aftur til Reykjavíkur og flutt í Sörlaskjólið auk þess að bíða eftir því að finna vinnu við hæfi. Ef ekki, þá er ég víst á leiðinni í háskólann.

En ég nenni ekki að tala um það.

John karlinn Hughes var að deyja. Svona fyrir þá sem ekki þekkja til, þá gerði hann myndir á borð við Home Alone og svo var hann ábyrgur fyrir kvikmyndaferli Molly Ringwald og frasanum „Anyone? Anyone? Bueller?“ (þó svo ég held að þetta hafi ekki verið orðað nákvæmlega svona í Ferris Bueller’s Day Off).

Hvað um það, fólk talar um að hann hafi náð anda unglingsáranna vel í sínum bíómyndum. Ja, ég veit ekki hver upplifði unglingsár sín eins og John Hughes mynd en það var sannarlega ekki ég. Mér fannst t.d. hin margrómaða Breakfast Club vera hálfgerð froða en kannski hefur það eitthvað með það að gera að ég sá þá mynd ekki fyrr en ég var búin að sjá þátt í fyrstu seríu af Dawson’s Creek sem vísaði mikið í Breakfast Club.

Nei, þær eru ekki margar amerísku unglingamyndirnar sem líkjast því sem maður upplifði sjálfur sem unglingur. Þær eru ekki kannski allar alslæmar en hversu mikið sem ég held upp á Dazed and Confused (leikstýrð af Richard Linklater), þá finnst mér hún ekkert lýsa því sem ég upplifði sem unglingur.

Góðu og raunsönnu unglingamyndirnar koma nefnilega frá Svíþjóð. Það þekkja margir til Fucking Åmål, kannski ekki jafnmargir sem þekkja til Hip Hip Hora! en sú mynd er feykilega góð. Ég reyndar efast um að Ameríkanar myndu höndla þessa mynd. Hún var víst bönnuð undir 18 í Bretlandi og er samt um 13-14 ára krakka. Heh, Bretar. Ég horfði nú á Skins sem fjallar um unglinga á svipaðan hátt (reyndar örlítið meira um staðalímyndir þar).

Auglýsingar

Maður er manns gaman

Ég fékk heimsókn í gær og það var æði. Hún Ásta Stefánsdóttir sem vann með mér í Héraðsdómi var stödd hér norðan heiða og kíkti til mín í kaffi.

Réttara sagt gerði ég hana að tilraunadýri þar sem ég hafði ekki hellt upp á kaffi. Hún systir mín lét mig hafa þessa líka forláta expresso könnu svo ég prófaði hvort ég gæti gert drekkandi kaffi úr henni. Það virtist hafa tekist hjá mér, allavega drakk Ásta tvo bolla.

Svo fengum við okkur göngutúr niður í bæ og vorum aðallega í því að flækjast fyrir bílunum sem voru á rúntinum.

Ásta fór frá mér rétt fyrir miðnætti en ég gat bara alls ekki farið að sofa þar sem ég var eiginlega á kaffíntrippi. Sofnaði svo seint og um síðar meir og var ein af tíu Íslendingum sem horfði ekki á leikinn í morgun. Ekki að það hefði breytt neinu og svo er meira en lítið flott að vinna silfur.

Það var alveg ágætis veður hér á Akureyri í dag og ég fór í sund. Ég hef ekki komið í sundlaug Akureyrar í mörg mörg ár – mig grunar ekki síðan einhvern tímann á níunda áratugnum. Held að hún hafi tekið einhverjum breytingum en það var fínt að stinga sér til sunds þarna og fara svo og slappa af í heitu pottunum. Held meira að segja að ég hafi orðið útitekin en ég var þó ekki eins og einn gaur þarna sem virtist álíta að hann væri á frönsku rívíerunni eða eitthvað. Mjög ástríðufullur sóldýrkandi þar á ferð.

Um blogg, nafnleysi og nethegðun

Ég horfði á innslag í Íslandi í dag á Stöð tvö áðan um nafnlausa bloggara, ábyrgð og hegðun þeirra í sambandi við nafnlaus skrif sem höfðu birst á Moggablogginu um sóknarprestinn á Akureyri.

Í innslaginu var eitthvað imprað því hvort að það ætti að setja lög yfir nafnlausa bloggara og netverja og hvort að það væri að hefta málfrelsi eða hvort að það væri eðlileg kurteisi að koma fram undir nafni á netinu.

Persónulega þá held ég að fólk ætti að vera í fullu frelsi að skapa sér þá netpersónu og/eða nánd sem það vill svo lengi sem það brjóti ekki lög.

En geta lög náð yfir nafnleysinga? Flestar fyrirtæki sem rekar bloggþjónustur, t.d. WordPress sem ég er að nota núna, hafa ákveðnar reglur, í skilmálum WordPress segir m.a.

the Content is not obscene, libelous or defamatory (more info on what that means), hateful or racially or ethnically objectionable, and does not violate the privacy or publicity rights of any third party;

Telji maður eitthvað vera meiðyrði, þá skal hinn sami tilkynna það til vefstjóra WordPress og þeir geta gert viðeigandi ráðstafanir eins og loka viðkomandi bloggi.

Þetta sama er náttúrulega hægt á Moggablogginu sem styrinn stendur um núna. Mjög svipaða klausu má finna í skilmálum þeirra. Nú veit ég ekki hvort að það sé nýlega tilkomið. Þar er líka boðið upp á að fólk hafi samband við vefstjóra ef manni finnst einhver vera brjóta skilmálana.

En Moggabloggið er svolítið ólíkt WordPresskerfinu. Hérna er maður eyland og maður getur svo sem verið það á Moggablogginu en það er mjög auðvelt að gera sig afar sýnilegan með því að gera athugasemdir við fréttir á vefnum eða finna vinsælustu bloggin og skilja eftir athugasemdir þar. Á margan hátt líkist Moggabloggskerfið öðru bloggkerfi sem ég þekki mjög vel, Livejournal. Þar sem það er svona samfélagskerfi – þá hefur verið komið á sjálfboðaliðskerfi sem fjallar um umkvartanir fólks um innihald annarra. Þeir sem bjóða sig fram, eru sjálfir notendur þjónustunnar og eru henni kunnugir.

Kannski er það eitthvað sem hugnaðist bæði þeim sem vilja koma böndum yfir nafnleysingjana og þá sem finnast að boð og bönn gangist ekki.

Reyndar er eitt sem hefur gangnast vel gegn nafnleysingjunum sem standa í skítkasti  – hvernig sem maður skilgreinir þá. Bara látast sem maður sjái þá ekki – og kannski dunda sér við skoða Flame Warrior listann og finna rétta skilgreiningu fyrir þá.

Það er reyndar svolítið leiðinlegt hversu margir eru bara Jerk.

Margt að sjá

Til þess að eitthvað gerist á þessu bloggi, þá ætla ég að tengja á þrjú myndbönd.

Sarah Silverman er amerískur grínisti og er þekkt fyrir frekar grófan húmor sinn. Kærastinn hennar er Jimmy Kimmel sem er spjallþáttastjórnandi.

Sarah sendi Jimmy þetta myndband sem hann sýndi í þættinum sínum – augljóslega.

Jimmy notaði tækifærið og sendi Söruh tóninn í þessu myndbandi.

Og hérna er svo spoof video. Ykkur til upplýsingar, þá er Seth Rogen er gaurinn úr Knocked Up sem var líka í The 40 Year Old Virgin og Undeclared og Freaks and Geeks fyrir þá sem sáu þá þætti. Skrifaði líka Superbad sem ég er ennþá ekki búin að sjá en langar til að sjá.

Um merkilegt fólk og fleira

Maður þarf að fara að uppfæra þetta oftar. Það er svo margt sem mig langar að tala um.

Skólinn er nú eitt en ég veit ekki hversu áhugavert sé að heyra um hann. Ég held að ég geymi það þangað til að ég verð byrjuð í æfingakennslunni, þ.e.a.s. ef ég fæ einhvern til að kenna hjá. Þessir kennarar vilja bara ekki svara tölvupóstum. (Á meðan ég var að skrifa þessa færslu þá kom tölvupóstur frá einum af þeim sem ég hafði samband við. Sá kenndi mér þegar ég var í MH.)

Mér var nú ansi brugðið þegar ég frétti í gærkvöldi að Heath Ledger væri látinn. Einn af mínum uppáhaldsleikurum og jafngamall mér. Frammistaða hans í Brokeback Mountain (sem er ein besta kvikmynd sem gerð hefur verið) var betri en orð fá lýst. Ég mæli svo sannarlega með henni. Einnig held ég mikið upp á aðrar myndir með honum eins og Knight’s Tale, 10 Things I Hate About You og Ned Kelly. Ég held að það megi segja að þetta sé kvikmyndaheiminum og kvikmyndaunnendum harmdauði, hvað þá fjölskyldu hans.

 En svo ég taki upp léttara tal, The Daily Show sem heitir A Daily Show á meðan handritshöfundaverkfallinu stendur,  sýndi í gærkvöldi fyrri hlutann af tveimur um þátttöku Íslendinga í Írak. Þeim sem leikur forvitinn að sjá þetta, smellið hér og veljið „Operation Deserter Storm“ af sleðalistanum í miðjunni. Ef að þið eruð að lesa þetta eitthvað eftir 23. janúar, þá mæli ég með að þið smellið þar sem segir videos í stikunni þarna upp og finnið myndbandið þar. Gaman var að sjá Stefán Pálsson í viðtali þarna.

Og talandi um gamla Gettu Betur keppendur og dómara, ég horfði á Ármann Jakobsson í Sunndagskastljósinu hjá Evu Maríu Jónsdóttir. Það fannst mér gott viðtal enda finnst mér heilmikið til Ármanns koma. Hann á m.a. heiðurinn að hafa skrifað afarskemmtilega en umfram allt góða fræðibók um konungasögu sem heitir Í leit að konungi. En hann sagði ýmislegt merkilegt. Eins og þegar hann lýsti lífstíl sínum og hvernig hann lætur ekki toga sig í allar áttir. Og ég gat verið sammála honum með að svara spurningum í Gettu Betur. Mér fannst t.d. ég geta svarað miklu meira þegar ég var undir pressu og að keppa en ég get nokkurn tímann sitjandi heima í stofu að horfa á spurningakeppni. Það kannski útskýrir að hluta til minni oft á tíðum takmarkaða áhuga á að horfa á spurningakeppnir í sjónvarpinu. Ég geri það oft eingöngu af skyldurækni.

Imbinn

Ég er hætt að horfa á sjónvarp.

Ókei, það er ekki alveg satt en samt ekki fjarri lagi. Málið er að ég tók meðvitaða ákvörðun um að ég myndi ekki nenna að reyna að halda í við heila dóbíu af framhaldsþáttum þó svo ég gæti jafnvel hlaðið þeim niður af netinu og horft á þá þegar ég vil. Ég bara hef ekki tíma nema fyrir svona c.a. tvo þætti og fyrir valinu urðu America’s Next Top Model því að stelpur í dramakasti eru alltaf skemmtilega og Bones sem ég féll óvænt fyrir. Á meðan liggja þættir eins og Heroes óbættir hjá garði. Maður nælir sér kannski í þá einhvern tímann til að horfa á DVD eða eitthvað.

Það er eiginlega fyndið hvað maður þarf að hafa fyrir því að horfa á sjónvarp þó svo athöfnin sjálf sé frekar átakalaus, annað hvort að sitja upp í rúmi með lappann að horfa á það sem maður var að hlaða niður eða í hægindastól fyrir framan sjónvarpið. Málið er hinsvegar að finna þáttinn á netinu, hlaða honum niður sem tekur tíma og svo að finna tímann til að horfa á þáttinn. Eða þá passa að maður hafi tíma til að horfa á þáttinn á tilteknum tíma í sjónvarpinu.

Sorry, en eins og líf mitt er þessa dagana, þá yrðu það bara einar áhyggjurnar í viðbót og ég get alveg verið án þeirra.

Hinsvegar virðist ég yfirleitt alltaf hafa tíma til að horfa á sjónvarpip á milli fimm og sjö virka daga. Sem þýðir að ég horfi á Glæstar vonir, Nágranna, smá af Dr Phil eða einhvern matreiðsluþátt á BBC Food og fréttirnar. En það er eingöngu afslöppun. 🙂

Súrt regn

Er ekki ágætt að miða við að uppfæra þetta blogg svona á mánaðarfresti?

Reyndar var ég með færslu í smíðum í þó nokkurn tíma um klám en svo var sú tugga of tuggin jafnvel fyrir mig svo ég hlífi ykkur fyrir því.

En hvað er með þennan enska texta að nýja júróvisjón laginu? „A passion killed by acid rain, a roller coaster in my brain“ og svo eitthvað sem hljómar eins og „rock’n’ roll will heal your soul, while broken hearts will suck on trolls.“ Nokkuð viss um að ég er ekki að heyra seinasta partinn þarna rétt (ég vil ekki trúa því að það sé „suck on trolls“ en það er það sem ég heyri) en kannski ættu júróvísjóntextar bara að vera svona efni í kissthisguy vitleysu.

Kannski verður „A passion killed by acid rain, a roller coaster in my brain“ bara á sama stalli og „Lorraine in the rain“ (Búlgaría 2005).

Hinsvegar geta júróvísjónlög orðið klassík eins og þetta hérna að neðan:

Previous Older Entries