Tilraun til að létta andrúmsloftið

Hverjum langar ekki að fá smá breik frá kreppuumræðunni og öðru slíku? Eða þá bandarísku forsetakosningunum?

Þess vegna ætti fólk að létta sína lund með því að líta á þessa stórskemmtilegu hlekki.

Fyrst er að nefna Cakewrecks, blogg þar sem kökuskreytingarslysum eru gerð skil.

Maður hefur verið grafin í gröfum allt sitt líf en hérna er síða sem gerir gröf skemmtileg.

Internetið er fullt af videóum en þetta hérna um góðu lögguna og barnalögguna er með þeim betri.

Og fyrir þá sem vilja gera grín að þessu öllu saman, kreppunni og hinu, þá skulu þeir hinir sömu ekki leita lengra en á Baggalút. Ég dýrka þjóðbloggin.

Ef ykkur hefur ekki stokkið bros eftir að hafa skoðað þessa hlekki, þá get ég lítið gert fyrir ykkur.

Auglýsingar

Um merkilegt fólk og fleira

Maður þarf að fara að uppfæra þetta oftar. Það er svo margt sem mig langar að tala um.

Skólinn er nú eitt en ég veit ekki hversu áhugavert sé að heyra um hann. Ég held að ég geymi það þangað til að ég verð byrjuð í æfingakennslunni, þ.e.a.s. ef ég fæ einhvern til að kenna hjá. Þessir kennarar vilja bara ekki svara tölvupóstum. (Á meðan ég var að skrifa þessa færslu þá kom tölvupóstur frá einum af þeim sem ég hafði samband við. Sá kenndi mér þegar ég var í MH.)

Mér var nú ansi brugðið þegar ég frétti í gærkvöldi að Heath Ledger væri látinn. Einn af mínum uppáhaldsleikurum og jafngamall mér. Frammistaða hans í Brokeback Mountain (sem er ein besta kvikmynd sem gerð hefur verið) var betri en orð fá lýst. Ég mæli svo sannarlega með henni. Einnig held ég mikið upp á aðrar myndir með honum eins og Knight’s Tale, 10 Things I Hate About You og Ned Kelly. Ég held að það megi segja að þetta sé kvikmyndaheiminum og kvikmyndaunnendum harmdauði, hvað þá fjölskyldu hans.

 En svo ég taki upp léttara tal, The Daily Show sem heitir A Daily Show á meðan handritshöfundaverkfallinu stendur,  sýndi í gærkvöldi fyrri hlutann af tveimur um þátttöku Íslendinga í Írak. Þeim sem leikur forvitinn að sjá þetta, smellið hér og veljið „Operation Deserter Storm“ af sleðalistanum í miðjunni. Ef að þið eruð að lesa þetta eitthvað eftir 23. janúar, þá mæli ég með að þið smellið þar sem segir videos í stikunni þarna upp og finnið myndbandið þar. Gaman var að sjá Stefán Pálsson í viðtali þarna.

Og talandi um gamla Gettu Betur keppendur og dómara, ég horfði á Ármann Jakobsson í Sunndagskastljósinu hjá Evu Maríu Jónsdóttir. Það fannst mér gott viðtal enda finnst mér heilmikið til Ármanns koma. Hann á m.a. heiðurinn að hafa skrifað afarskemmtilega en umfram allt góða fræðibók um konungasögu sem heitir Í leit að konungi. En hann sagði ýmislegt merkilegt. Eins og þegar hann lýsti lífstíl sínum og hvernig hann lætur ekki toga sig í allar áttir. Og ég gat verið sammála honum með að svara spurningum í Gettu Betur. Mér fannst t.d. ég geta svarað miklu meira þegar ég var undir pressu og að keppa en ég get nokkurn tímann sitjandi heima í stofu að horfa á spurningakeppni. Það kannski útskýrir að hluta til minni oft á tíðum takmarkaða áhuga á að horfa á spurningakeppnir í sjónvarpinu. Ég geri það oft eingöngu af skyldurækni.

Að segja eitthvað

Stundum langar mig að rífast. Stundum langar mig að segja eitthvað. En ég lærði fyrir löngu að yfirleitt er best að þegja þó svo maður sé handviss um að maður viti betur. Ég þegi ekki alltaf og það hefur alveg hvinið í mér við fólk þegar það talar niðrandi um samkynhneigða eða er með áberandi kynþáttafordóma. Ég læt yfirleitt xenófóbíuna vera enda yrði maður fljótt vitlaus ef maður ætlaði eitthvað reyna skamma fólk fyrir slíkt.

En það er bara svo ótrúlega oft sem ég þarf að sitja á mér. Kannski vegna þess að ég er eins og manneskjan sem var að skrifa í Stúdentablaðið sem kom með Fréttablaðinu í dag. Ég held að ég sé óumburðarlynd gagnvart óumburðarlyndi. Óumburðarlyndi og fordómar eru svo mikið eitur í mínum beinum að mig langar oft að tukta fólk til sem hefur slíkt uppi.  Það vekur hjá mér líkamleg óþægindi – ég finn hverning boðefnin þjóta í heilanum á mér og hvernig nýrnahetturnar hamast við að dæla út hormónum.

En kannski vegna þess að ég kemst í svona líkamlegan ham, þá hef ég frekar stjórn á þessu og reyni sleppa því að lenda í rifildi.

En spurningin er auðvitað hvort að maður eigi ekki segja eitthvað. Því maður hefur rétt fyrir sér. 🙂

I can haz gud engleesh?

Ég hef nú ekkert verið að slíta út þessu bloggi undanfarið en það eru svo sem góðar ástæður fyrir því.

En ég ætlaði heldur ekki að láta þetta lognast út af svo ég fór að reyna láta mér detta eitthvað í hug til að skrifa um. Það er margt sem brennur á þjóðarsálinni um þessar mundir en flest af því eitthvað sem ég nenni ekki að tala um í bili. Mér gæti svo sem dottið í hug að skrifa eina færslu eða svo um femínisma en ekki verður það núna.

Það er hinsvegar eitt sem ég hef ætlað að tala um í nokkurn tíma og var minnt á það á laugardagskvöldið. Var á ferðinni, held ég að koma frá því að keyra mömmu í jólahlaðborð. Það er ekki í frásögur færandi nema að lagið Perfect Day með Lou Reed heyrist í útvarpinu. Mér finnst Perfect Day frekar gott lag og hefur fundist það frá því að ég heyrði það í Trainspotting hérna fyrir meira en tíu árum. Sem minnti mig á fólkið sem vill endilega fá lagið flutt í brúðkaupi sínu. Þó svo að það megi túlka textann á marga vegu, er ekki hægt að afneita tengingunni við heróínneyslu – eitthvað sem fæstir myndu vilja tengja við brúðkaupið sitt. En sem sagt þessi einfeldni leiddi mig út í hugsanir um aðra einfeldni.

Í Baugsmálinu var sífellt verið að vísa í fundargerðir stjórnar Baugs sem voru á ensku og ég vona að ég hljómi ekki hrokafull þegar ég segi að þeir voru ekkert að springa úr orðaforða svo að segja. Ekki vitlaust mál þannig lagað en maður þurfti nú varla að hafa náð samræmda prófinu í ensku til að geta lesið þessar fundargerðir. Hafandi þetta í huga og ýmislegt annað, meðal annars hversu mikið ég hef orðið að hafa fyrir minni enskukunnáttu, þá hefur mér fundist umræða um að taka upp sem aðalmál innan ákveðinna fyrirtækja pínulítið barnaskapur. Nú efa ég ekki að margir starfsmenn þessara fyrirtækja séu bara ágætt enskufólk sem fari létt með að brúka ensku dags-daglega. En ég get ekki ímyndað mér að þannig sé farið með alla starfmennina. Það er örugglega einhverjir þarna sem eiga að skrifa tölvupósta eða annan texta og láta eitthvað svona frá sér fara: „Since 5 weeks ago, opportunity’s are less then befour.“ OK, villupúkinn myndi kannski grípa befour þar sem það er vitlaus starfsetning en „Since … ago“ er ekki neitt sem villupúkinn myndi pikka upp á en er vitlaust þar sem það nægir að nota annað. „opportunity’s“ er eignarfallið, ekki fleirtalan sem myndi vera „opportunities“. Komman kemur fleirtölu ekkert við nema orðið sem stendur í fleirtölu, sé einnig í eignarfalli og þá yrði það svona „opportunities'“. Less er náttúrulega bara vitlaust og ætti að vera „fewer“ og „then“ er notað á sama hátt og forsetningarnar þá og þegar. Í staðinn ætti að standa „than“. Befour var svona til að minna á að það er erfitt að stafsetja á ensku vegna þess að það getur munað miklu milli þess hvernig orðið er borið fram og hvernig það er skrifað.

Svo var setningin í sjálfu sér kolröng.

En kannski eru bankarnir og önnur fyrirtæki vilja taka upp enskuna, með góða enskukennslu. Hvað veit ég?

FWD:

Systir mín var að kvarta yfir því að ég væri hætt að blogga hérna. Það hefur verið einhver skriftardeifð í mér en ef að þið getið ekki fengið nóg, þá skuluð þið endilega kíkja á MySpace síðuna mína (hlekkur hérna til hliðar). Ég er stundum að setja einhverja vitleysu inn á bloggið þar.

 En reyndar hef ég eitthvað til að blogga um núna og nei, það er ekki Baugsmálið. Bendi frekar á opnuna í Mogganum eða þá tilvitnirnar í Fréttablaðinu – get ímyndað mér að þær verði fleiri. Arngrímur á eftir eitthvað fleira hnyttið, svo mikið veit ég.

Nei, mitt umfjöllunarefni í dag, er svona áframsendir tölvupóstar. Þið þekkið þá. Stundum er það brandari, stundum eru það myndir eða PowerPoint glærur um það sé „Alþjóðlega Konuvikan“ og maður eigi að senda öllum fallegum konum í vinahóp sínum þetta o.s.fv. Mér er frekar illa við svona framsenda tölvupósta þar sem ég „verð að senda póstinn 10 manns innan 10 mínútna annars lifi ég við 10 ára ógæfu“. Það er ekkert gaman að fá svoleiðið í hólfið sitt. Nóg er nú af draslinu þar fyrir. Mér finnast fyndnar myndir og hjartnæm skilboð allt í lagi en get alveg verið án þeirra.

En verstir þykja mér platpóstarnir. Ég hellti mér einhvern tímann yfir títtnefnda systur mína þegar hún áframsendi mér póst sem var að vara konur við að óprúttnir menn væru farnir að setja hestastera út í drykki hjá konum svo þær myndu missa meðvitund og nauðga þeim svo en þær sætu svo uppi með það að vera ófrjóar allt sitt líf eftir hestasterana. Ég veit ekki með ykkur en um leið og ég las þetta, hugsaði ég: „Djöfuls rugl.“ Og fór og fletti upp á einni bestu vefsíðu í heimi, snopes.com. Bara snilld þessi síða. Þarna er nefnilega hægt að fletta upp alls konar flökkusögum og götufróðleik svokölluðum til staðreyna hann. Elvis dó t.d. ekki af því að vera með garnirnar fullar af 60 (!) kg af saur eins og Jónína Ben hélt fram í Kastljósi um daginn. Sértu með mikið yfir 500 g af saur í þörmunum, er það afar kvalafullt fyrir mann. 60 kg er óhugsandi. Og þetta gat ég séð á Snopes. Snilldin er líka sú að þeir leita sér heimilda til sanna og afsanna hluti.

En ástæðan fyrir því að þetta liggur mér svo mikið á hjarta nákvæmlega núna, er það að ég fékk sendan svona áframsendan tölvupóst í dag í vinnunni frá einhverri konu sem ég veit engin deili á önnur en það að hún vinnur hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Henni hafði nefnilega dottið í hug að senda þetta á tölvupóstafangahóp sem heitir „Allir héraðsdómar“ (sendist þarf af leiðandi á alla starfsmenn héraðsdóma landsins). Ég viðurkenni það, ég hálfmissti mig, sendi konunni svar til baka um það að þetta væri plat og hún væri að skapa óþarfa álag á póstþjóna.

Ég veit ekki með ykkur en ég ætla í framtíðinni að senda öllum þeim sem senda mér svona platpóst svar til baka með hlekk á viðkomandi grein á Snopes. Kannski fer fólk aðeins að nota þessa almennu skynsemi sem maður ætlast til að það hafi.