Aðlaðandi er konan ánægð

Eitt af uppáhaldsorðunum mínum á ensku er sögnin „to procrastinate“ – það er ekki til almennileg íslensk þýðing yfir þetta en slóra kemst næst þessu. Þetta er einfaldlega þegar maður gerir eitthvað annað (eða gerir ekki neitt) þegar maður þarf eiginlega að gera ákveðna hluti – t.d. eins og að læra, vinna eða taka til.

Núna í kvöld hefði ég nefnilega átt að læra smávegis en í staðinn fór ég að taka til í beauty boxinu mínu. Þar sem ég hef ekkert gert það í svona ca. tvö ár, þá var það kannski eitthvað sem ég þurfti að gera strax þó svo að þegar ég hófst handa, var það augljóst að þess þyrfti með.

Fyrir þá sem ekki vita, þá hef ég smá æði fyrir snyrtivörum. Ég nota kannski ekki svo mikið af þeim dagsdaglega – púður, maskara, eyeliner og gloss eða eitthvað svoleiðis og þá helst það sama dag eftir dag. Ég nota t.d. ekki augnskuggafernuna mína sem er með fjólubláum, túrkísbláum, eplagrænum og gulum augnskuggum svona í vinnunni. Samt hennti ég henni ekki áðan. Ég henti hinsvegar varalit, ef varalit skyldi kalla, sem að ég keypti þegar ég var með Sirrý út í London 1999. Hann var glær með glimmer, mjög svona virðulegur og klæðilegur eða þannig. Með þetta í huga og einnig þá staðreynd að maður á helst ekki að nota varaliti og gloss sem eru eldri en þriggja ára, fór þessi varalitur í ruslafötuna.  Mikið af því sem fór í ruslafötuna, var stuff sem var einmitt í tísku fyrir allt að því áratug síðan. Glimmer dót og svona. Ég get ekki beðið þessi fimmtán-tuttugu ára sem tekur snyrtivörutrenda að komast aftur í tísku.

Eitthvað af því sem lenti í ruslafötunni voru snyrtivörur sem að ég hafði keypt að ábendingu afgreiðslufólks, m.a. meik sem var ca. tveimur tónum of dökkt. Hvað er þetta með mikið af fólki sem vinnur við að selja snyrtivörur, getur það ekki leiðbeint almennilega? Sérstaklega þar sem það reynir að selja manni dýrari vörurnar. Það er bara í Hygeu sem ég hef ekki fengið slæmar ráðleggingar. Ég þoli t.d. ekki fyrirkomulagið í Debenhams. Þangað fer maður bara ef manni vantar eitthvað ákveðið. Ég er t.d. mjög glöð að MAC er komið með eigin búð í Kringlunni.

Stærstu breytingarnar þó hjá mér við að það taka til í beauty boxinu mínu, voru ekki þær að ég losaði mig við svona einn þriðja af innihaldi þessi heldur það að ég ákvað loksins að hætta hugsa um Urban Decay sem uppáhalds snyrtivörumerkið mitt. Ég skipti kannski um skoðun ef að umbúðirnar þeirra verða betri. Mér finnst litirnir hjá þeim geggjaðir og ótrúlega klæðilegir en ég þoli ekki þegar gloss leka eða þegar túban rifnar bara í sundur eða þegar maður hættir að geta skrúfað pensilinn upp úr. (Já, þetta kom fyrir þrjú af þeim fjórum Urban Decay glossum sem að ég hef eignast um ævina).

Auglýsingar