Ræmur um unglingsárin

Póstaði ég seinast í maí? Ég held það og það er komin ágúst. Ég komin aftur til Reykjavíkur og flutt í Sörlaskjólið auk þess að bíða eftir því að finna vinnu við hæfi. Ef ekki, þá er ég víst á leiðinni í háskólann.

En ég nenni ekki að tala um það.

John karlinn Hughes var að deyja. Svona fyrir þá sem ekki þekkja til, þá gerði hann myndir á borð við Home Alone og svo var hann ábyrgur fyrir kvikmyndaferli Molly Ringwald og frasanum „Anyone? Anyone? Bueller?“ (þó svo ég held að þetta hafi ekki verið orðað nákvæmlega svona í Ferris Bueller’s Day Off).

Hvað um það, fólk talar um að hann hafi náð anda unglingsáranna vel í sínum bíómyndum. Ja, ég veit ekki hver upplifði unglingsár sín eins og John Hughes mynd en það var sannarlega ekki ég. Mér fannst t.d. hin margrómaða Breakfast Club vera hálfgerð froða en kannski hefur það eitthvað með það að gera að ég sá þá mynd ekki fyrr en ég var búin að sjá þátt í fyrstu seríu af Dawson’s Creek sem vísaði mikið í Breakfast Club.

Nei, þær eru ekki margar amerísku unglingamyndirnar sem líkjast því sem maður upplifði sjálfur sem unglingur. Þær eru ekki kannski allar alslæmar en hversu mikið sem ég held upp á Dazed and Confused (leikstýrð af Richard Linklater), þá finnst mér hún ekkert lýsa því sem ég upplifði sem unglingur.

Góðu og raunsönnu unglingamyndirnar koma nefnilega frá Svíþjóð. Það þekkja margir til Fucking Åmål, kannski ekki jafnmargir sem þekkja til Hip Hip Hora! en sú mynd er feykilega góð. Ég reyndar efast um að Ameríkanar myndu höndla þessa mynd. Hún var víst bönnuð undir 18 í Bretlandi og er samt um 13-14 ára krakka. Heh, Bretar. Ég horfði nú á Skins sem fjallar um unglinga á svipaðan hátt (reyndar örlítið meira um staðalímyndir þar).

Auglýsingar

íturvaxin snót

Eins og kannski flestir vita sem þekkja mig, þá er ég Harry Potter aðdáandi og finnst J.K. Rowling vera frábær höfundur og það sem kannski meira er, frábær manneskja.

Hún á heimasíðu sem er með þeim flottari, www.jkrowling.com og uppfærir þar svona af og til, stundum um bækurnar og stundum um hugðarefni sín. Í dag var uppfærsla þar sem hún talaði um staðaltýpur og hvernig yfirborðskennd og hégóma væri hyllt og í okkar samfélagi væri það í raun og veru verra að vera feitur en t.d. að vera grunnhyggin eða leiðinlegur. (Hérna er beinn hlekkur á færsluna).

Það er kannski ekki beint gott fyrir heilsuna að vera of feitur en ég veit að mikill meirihluti þeirra sem eru með aukakíló, vita að þeir séu of þungir og langar til að gera eitthvað í því. Það er hinsvegar ekki auðvelt og ég þoli ekki að þegar fólk þykist vera betri en ég bara vegna þess að það er grannara. Enda tek ég ekki mark á svoleiðis fólki.