Stuttir LAN-kaplar og brjóstin á vitlausum stað

Núna er ég komin til Kyoto og er búin að fara í spa. Veit ekki hvort þetta telst sem alvöru onsen þar sem þetta tilheyrir hótelinu sem við erum á en afslappandi var það. Þarna fer maður í svona heita laug (laugar) og sauna. Þetta gerir maður nakin enda er þessu baði kynjaskipt. Reyndar þarf maður að þvo sér vel fyrst eftir kúnstarinnar reglum en mér fannst þetta bað æði. Svo er vatnið frábært fyrir húðina sem er svolítið annað en heita pottarnir í sundlaugunum heima. Hótelið sem við erum á er reyndar afbragðshótel fyrir utan að LAN-kapallinn er alltof stuttur. Já, við kvörtum undan of stuttum LAN-köplum.

Til þess að komast til Kyoto frá Tokyo, er hefðbundið að taka shinkanzen, það er að segja hraðlestina. Það er reyndar frekar dýr en tilltölulega þægilegt þó svo að við þurftum fyrst að fara í vitlausa átt inn í Tokyo til að taka lestina frá Shinagawa. En hvað var það annað en afskökun til að nota Yamanote línuna. 😉

Ég er búin að bralla mikið undanfarna daga en einnig slappa af. Þó að maður eigi nú að reyna að nota tímann þegar maður er svona í útlöndum, getur maður tekið því rólega. Maður sparar líka pening á því þar sem Japan er EKKI ódýrt land.

Dýrtíðin stoppaði okkur reyndar ekki í því að skoða almennilega í búðir í gær. Ég og Elín mæltum okkur mót við Marc vin hennar í Shinjuku því við ætluðum m.a. að sjá nýju Harry Potter myndina (það ætti engum að koma á óvart að ég og Elín höfum brugðið okkur á Harry Potter). Við byrjuðum það að kíkja í búðir með því að skoða snyrtivörudeildina í Isetan. Isetan er rosalega og ég meina rosalega fínt verslunarhús. Elín keypti sér maskara við Lancome borðið og við fengum þá flottustu þjónustu sem ég hef fengið við að kaupa snyrtivörur. Við vorum látnar setjast við borðið, prófa eitthvað andlitsvatn og svo var hlaðið á okkur prufum sem var vandlega pakkað inn og settar í poka.

Vestrænar konur af stærri gerðinni gera ekki mikil fatainnkaup í Japan. Japanskar konur eru almennt séð ekki mikið hærri en 1.60m á hæð og frekar grannvaxnar. Svo eru hlutföllin á skrokknum önnur. Elín segir að brjóstin á henni séu á vitlausum stað í þessu landi. Þess vegna gengur maður í gegnum fatabúðirnar og dáist að sætu flíkunum en dreymir ekki einu sinni um að það sé til í manns stærð.

Aftur á móti var stuð að fara með Marc í gegnum karladeildirnar. Marui er ein af stærri búðunum í Tokyo og þar er ótrúlega hip og kúl karladeild (margir ungir japanskir karlmenn eru svaka gæjar og leggja rosalega mikið upp úr útlitinu) og þar sem Marc er með svolitla fatadellu, var þetta ótrúlega skemmtilegt. Enda kemst hann í japönsk karlaföt þar sem hann er grannur þó svo að hann sé svolítið hávaxnari en japanskir karlmenn eru almennt.

Eftir að hafa kíkt í bókabúð sem var með ágætt úrval af bókum á ensku (og þar sem ég fékk tímarít um skauta!!!), vorum við eitthvað aðframkomin af hita og enduðum að fá okkur frappocino á Starbucks þar sem við enduðum á tjattinu við tvær japanskar stelpur sem voru báðar ansi góðar í ensku (enda höfðu þær báðar búið annars staðar en í Japan). Japanir tala alls ekki mikla ensku upp til hópa og þegar maður er ekki sleipur í japönsku sjálfur, fara samskiptin við innfædda fram með svipbrigðum og höfuðhneigingum.

Svo var það Harajuku sem var kitsch og skrítið en kannski ekki eins kitsch og skrítið og ég hélt að það yrði. Maður sá alveg stelpur uppábúnar í fullum Lolita-skrúða og svona en meirihlutinn af fólkinu var ekki undarlegri til fara en gerist og gengur.

Við fengum okkur mat á tælenskum stað og ég fékk mér krabba sem var rosalega góður en alltof mikil vinna við að fá kjötinu úr skelinni. Elín og Marc sem fengu sér mun „auðveldari“ mat, vorkenndu mér svolítið.

Áður en við fórum í bíóið, skruppum við í spilasal því Marc langaði svo í einhvern trommuleik þar. Ég prófaði hann og þetta var mjög skemmtilegur leikur þó að ég sökkaði í honum.

Í bíóinu hittum við íslenskan strák sem ég meira að segja kannaðist við því hann var með mér í MH. Heimurinn er stundum ekkert rosalega stór.

Harry Potter var rosaleg og ég grenjaði sko alveg á sömu stöðunum sem ég grenjaði yfir þegar ég las bókina.

Á leiðinni heim var einhver galsi í okkur og ég held að ég og Elín höfum náð að hneyksla einhverja Japani með því að hlæja tryllingslega að þeirri yfirlýsingu Marcs að Skyrgámur væri franskur. Já, við ræðum íslenska jólasveina þegar við erum að taka lestina heim á kvöldin.

En núna sit ég afslöppuð á hótelherbergi í Kyoto tilbúin í að fara að skoða tonn af hofum og svoleiðis á morgun svo lengi sem það rigni ekki eldi og brennisteini. (Þeir voru hræddir við einhvern hitabeltisstorm sem átti að ganga yfir Japan).

Auglýsingar