Ætli vorið sé komið?

Það er víst ár og dagur síðan ég uppfærði þetta blogg seinast. Ég held á tíma hafi mér fundist eins og það eina sem væri að gerast á Akureyri væri snjór og meiri snjór.

Á ekki alveg við núna þó svo fjöllin séu enn vel hvít. Ég held nefnilega að hitastigið hafi skriðið upp í tveggja stafa tölu í dag. Þó lét veturinn vita af sér á föstudagskvöldið þegar það var ógeðslegt slydduél út um allt.

Líklegast muni ég svo ekkert hafa miklar áhyggjur af akureyskum snjó næsta vetur þar sem ég verð mun líklega í Reykjavík. Það bara virðist engum vanta sögukennara. 😦 Og ég veit ekkert hvað ég er að fara að gera af mér í Reykjavík.

En þar sem ég nenni eiginlega ekkert að velta mér upp úr þessu eða öðrum leiðinlegum hlutum eins og stjórnmálum, þá ætla ég að tala um sæta stráka. Ég hef alveg rosalega gaman af svona listum þar sem fallegt fólk eru sett niður á lista. Það getur verið gaman þegar maður er alls ekkert sammála listunum. Það kemur oft fyrir með breska lista þar sem helmingurinn er fólk sem maður getur samþykkt að sé myndarlegt en hinn helmingurinn er barasta ekkert myndarlegur. Svo er náttúrulega fólk sem getur verið að einhverjum finnist myndarlegt en mér svo sannarlega ekki. T.d. Vin Diesel.

Reyndar var ég að komast að því að ég hef mjög svipaðan smekk og samkynhneigðir karlmenn. Þessi listi er valin af samkynhneigðum karlmönnum og ég er bara sammála flestu þarna. Slefa kannski ekki yfir alveg öllum en er mjög sátt á heildina litið.

Auglýsingar

Myndir segja meira en mörg þúsund orð

Hressandi vetrarmyndir.

27-10-08_1701

Bíllinn minn.

27-10-08_1702

Bíllinn minn er alveg á kafi.

27-10-08_1703

Snjófjallið hinu megin við götuna.

Sumarið var stutt …

Það er komin vetur á Akureyri, svona 5 cm djúpur snjór og snjókoma. Enda voru nemendurnir mínir ekki að flýta sér í tímann kl. 8.15 í morgun.

Nú er gott að eiga heima í næsta húsi við vinnustaðinn, það get ég sagt. Ekki hefði ég nett að skafa bílinn til þess að fara á honum í morgun. Sjáum til hvort ég verði í stuði fyrir hina vikulegu Bónusferð á morgun. Þarf líka að fara í endurvinnsluna með pappakassa en það hefur reyndar setið á hakanum lengi svo það gæti bara setið áfram á hakanum.

Til gamans má nefna að Flugfélag Íslands býður upp á flug um helgina til Akureyrar fyrir 5000 kr hvora leið. Langar ekki öllum að koma norður í snjóinn? 😉

Maður er manns gaman

Ég fékk heimsókn í gær og það var æði. Hún Ásta Stefánsdóttir sem vann með mér í Héraðsdómi var stödd hér norðan heiða og kíkti til mín í kaffi.

Réttara sagt gerði ég hana að tilraunadýri þar sem ég hafði ekki hellt upp á kaffi. Hún systir mín lét mig hafa þessa líka forláta expresso könnu svo ég prófaði hvort ég gæti gert drekkandi kaffi úr henni. Það virtist hafa tekist hjá mér, allavega drakk Ásta tvo bolla.

Svo fengum við okkur göngutúr niður í bæ og vorum aðallega í því að flækjast fyrir bílunum sem voru á rúntinum.

Ásta fór frá mér rétt fyrir miðnætti en ég gat bara alls ekki farið að sofa þar sem ég var eiginlega á kaffíntrippi. Sofnaði svo seint og um síðar meir og var ein af tíu Íslendingum sem horfði ekki á leikinn í morgun. Ekki að það hefði breytt neinu og svo er meira en lítið flott að vinna silfur.

Það var alveg ágætis veður hér á Akureyri í dag og ég fór í sund. Ég hef ekki komið í sundlaug Akureyrar í mörg mörg ár – mig grunar ekki síðan einhvern tímann á níunda áratugnum. Held að hún hafi tekið einhverjum breytingum en það var fínt að stinga sér til sunds þarna og fara svo og slappa af í heitu pottunum. Held meira að segja að ég hafi orðið útitekin en ég var þó ekki eins og einn gaur þarna sem virtist álíta að hann væri á frönsku rívíerunni eða eitthvað. Mjög ástríðufullur sóldýrkandi þar á ferð.

Bara alveg köld

Ég held að ég sé búin að fá nett ógeð á fólki. Ekki ykkur, vinum og fjölskyldu, en þessu fólki sem maður er alltaf að heyra um í fréttunum. Það er orðið slæmt þegar maður nennir ekki einu sinni að hafa skoðun á Árna Johnsen (ég get nú alltaf bara haft gömlu skoðunina, þarf svo sem ekkert að hafa fyrir henni). Svo er ég bara líka með ógeð á fólki sem er ekkert í fréttunum. Ég segi þetta kannski bara út af því að ég lenti í böggi um helgina en það er öllum fyrir bestu að ég fari ekki út í þá sálma.

Og kannski er ég bara svona pirruð núna því að mér er svo fjandi kalt á tánum. Gleymdi nefnilega ullarsokkunum. Ekki gott í öllum þessum snjó sem Reykjavíkurborg getur ekki sýnt sóma sinn í að ryðja af gangstéttnum.

Það er alltaf svolítið frelsandi að vera mánudagskverúlant.