Nýja árið og smá kattarfár

Gleðilegt nýtt ár til ykkar sem kynnu að lesa þetta blogg. Árið 2009 ætlar að byrja með látum hjá mér því nú er skollin á prófatíð í MA og mikið stuð varðandi prófasamningu, yfirsetur og svo þarf maður víst að fara yfir einhver próf líka.

Ég var í minni fyrstu yfirsetu í dag og það gekk nokkuð áfallalaust þó svo blessaðir nemendurnir gerðu tilraunir til að spyrja mig um spurningar á prófinu sem var nota bene efnafræðipróf. Allt er hey í harðindum segi ég.

Hátíðarnar voru mjög indælar en það var eiginlega gott að komast aftur í vinnuna þrátt fyrir að ég gæti alveg hugsað mér að halda áfram að sofa út og svona.

Hérna eru tvö myndbandsbrot af því sem ég tók mér fyrir hendur um hátíðarnar.

Myndband 1

Myndband 2

(Þetta er Gandalfur, kettlingurinn hennar Ásu vinkonu minnar og það er ég sem er atast þarna í greyinu).

Auglýsingar

Bókatíðindi

Ég þyrfti að koma mér upp reglulegri áminningu um að uppfæra þetta blessaða blogg. Þó stundum mér finnist ég ekkert hafa að segja þannig séð. Ég hef bara verið á kafi í undirbúningi fyrir kennsluna og svona.

Reyndar brá ég mér til Reykjavíkur um síðustu helgi til að kíkja á litlu stelpuna hennar Hebu sem er svakalega sæt og fín. Ég tók meira að segja myndir en þarf að muna að hlaða þeim inn.

Annars þegar ég hef ekki verið á kafi að undirbúa sögukennsluna, þá hef ég verið að lesa stórskemmtilegar bækur í bókaflokki sem heitir Temeraire. Þeir sem hafa smá þekkingu í listasögu, þekkja mynd Turners, The Fighting Temeraire. Temeraire í bókunum er hinsvegar dreki en hann berst í Napóleonstyrjöldunum. Eiginlega eru bæknurnar sögulegar skáldsögur með drekum og það verður að segja eins og er, höfundurinn er það fær að það gengur fullkomlega upp.

Ég var eiginlega að gefast upp vegna þess að ég hafði eiginlega ekki lesið góða bók í langan tíma áður ég byrjaði að lesa Temeraire. Sumt var nú sjálfri mér að kenna eins og lesa Twilight fjórleikinn (sem verður nú víst gefin út í íslenskri þýðingu). En ég reyndi til dæmis að lesa Laxveiðar í Jemen sem hafði fengið góða dóma og hún var hundleiðinleg. Það er ekkert gaman að lesa hundleiðinlegar bækur.

Um leið og ég skrifaði þetta, fékk ég óstjórnlega löngun til að lesa Elísarbækurnar. Verð að muna eftir þeim næst þegar ég á leið um Amtsbókasafnið.

Barnalegt

Ef það væri eitthvað eitt sem ég ætti að segja um Akureyri, þá myndi ég segja að hér væri mikið af börnum. Las á forsíðu Moggans áðan (var úti í búð) að fæðingartíðnin á meginlandi Evrópu væri orðin ískyggilega lág. Þeir ættu að fá Akureyringa í málið.

Annars var verið að skíra litlu nágranna mína í gær og ber þau hin myndarlegustu nöfn enda hin myndarlegustu börn.

Og í frekari barnafréttum, þá átti hún Heba, vinkona mín, stelpu á afmælisdaginn sinn, núna bara á föstudaginn. Ekki er það barn akureyskt en Íslendingar eru nú frekar frjósamir yfir höfuð. Meira en tíunda hver kona í mínum aldurshópi (í kringum þrítugt) átti barn á síðasta ári.

Mér líður bara bærilega hérna annars nema hvað ég er farin að fá undarlega slæma drauma. Eins og bara núna í nótt þegar mig dreymdi að ég væri með allri Vallafjölskyldunni í rútuferð (og ég var að passa einhverja hunda en það kemur engum á óvart) en svo komst rútan ekki áfram vegna þess að það var komið eldgos í Ingólfsfjallinu og ég vaknaði við það þegar öskunni fór að rigna yfir rútuna. Og það hafa verið fleiri svona heimsendadraumar. Sem betur fer efast ég um að ég sé berdreymin.

Maður er manns gaman

Ég fékk heimsókn í gær og það var æði. Hún Ásta Stefánsdóttir sem vann með mér í Héraðsdómi var stödd hér norðan heiða og kíkti til mín í kaffi.

Réttara sagt gerði ég hana að tilraunadýri þar sem ég hafði ekki hellt upp á kaffi. Hún systir mín lét mig hafa þessa líka forláta expresso könnu svo ég prófaði hvort ég gæti gert drekkandi kaffi úr henni. Það virtist hafa tekist hjá mér, allavega drakk Ásta tvo bolla.

Svo fengum við okkur göngutúr niður í bæ og vorum aðallega í því að flækjast fyrir bílunum sem voru á rúntinum.

Ásta fór frá mér rétt fyrir miðnætti en ég gat bara alls ekki farið að sofa þar sem ég var eiginlega á kaffíntrippi. Sofnaði svo seint og um síðar meir og var ein af tíu Íslendingum sem horfði ekki á leikinn í morgun. Ekki að það hefði breytt neinu og svo er meira en lítið flott að vinna silfur.

Það var alveg ágætis veður hér á Akureyri í dag og ég fór í sund. Ég hef ekki komið í sundlaug Akureyrar í mörg mörg ár – mig grunar ekki síðan einhvern tímann á níunda áratugnum. Held að hún hafi tekið einhverjum breytingum en það var fínt að stinga sér til sunds þarna og fara svo og slappa af í heitu pottunum. Held meira að segja að ég hafi orðið útitekin en ég var þó ekki eins og einn gaur þarna sem virtist álíta að hann væri á frönsku rívíerunni eða eitthvað. Mjög ástríðufullur sóldýrkandi þar á ferð.

Að hitta fólk

Í dag hitti ég fólk.

Og þá er ég ekki að tala um vinnuna þar sem ég heilsa öllum og engum. Þetta byrjaði náttúrulega í strætó þegar ég hitti hana Sigrúnu Jóns (sem ég reyndar hitti líka á þriðjudaginn þegar ég sá hana með Fanneyju frænka þar sem þær voru, eins og ég, að koma út af tónleikunum með Air).

En reyndar hafði ég mælt mér mót við fólk. Ég hitti nefnilega vinkonu mína af netinu, hana Janni og manninn hennar, hann Larry. Við hittumst fyrir utan grasgarðinn og fengum okkur að borða í Café Flóru. Mér fannst Janni rosa hugrökk þegar hún fékk sér leverpostej. Ég hitti hana Möggu sem vann með mér í póstinum þarna í Flóru og svo á meðan við vorum þarna, þá sá ég konu sem ég kannaðist ansi mikið við. Svo þegar við höfðum lokið við að borða og vorum að skoða grasagarðinn, labbar konan fram hjá mér og heilsar mér og ég heilsa og átta mig á því þegar ég stelpuna sem var að leiða hana og manninn og strákinn á eftir þeim, að þetta var hún Þóra frænka mín með fjölskylduna sína. Svona getur maður verið vitlaus.

En eins og ég segi, þá var æðislegt að hitta Janni og Larry. Við töluðum um Íslendingasögurnar því að þau eru mjög hrifin af þeim og eru bara almennt hrifin af Íslandi. Þetta er annað skiptið þeirra hérna og mér heyrðist á þeim að þeim langaði mikið að koma aftur. Þau voru sérstaklega ánægð með að hafa farið á Vestfirðina og sögðu að það hefði verið sérstök upplifun að sjá 17. júní hátíðarhöld.

Þegar ég hitti Bandaríkjamenn eins og Janni og Larry og eins og Christine vinkonu mína og fleiri bandaríska vini mína eins og Liz og Polly og suma af Könunum sem ég þekkti út í Englandi (en ekki alla), þá finnst mér illa vegið að Ameríkönum með því að segja að þeir séu upp til hópa háværir og heimskir. Reynar kenndi ég Larry og Janni að segja hálfviti og fáviti á íslensku. En þau er vel menntuð, vel lesin og víðsýnt fólk sem var afar gaman af spjalla við og finna hverju mikið þau höfðu lært um land og þjóð.

Það er nauðsynlegt fyrir sálartetrið að hitta skemmtilegt fólk af og til.

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega;
auðigur þóttumk,
er eg annan fann,
maður er manns gaman.