Vetrarblús á Akureyri

Það er snjór á Akureyri en það er ekkert nýtt. Ég held reyndar að það væri bara skrýtið þegar snjórinn loksins fer. Væntanlega verður það að þannig að maður getur bara keyrt í Drive um allt á sjálfskipta bílnum sínum og þvíumlíkt. Það var nefnilega stuð að festast í rampanum frá Glerártorgi upp á Þórunnarstræti á mánudaginn. Ég þurfti að bakka niður, setja í low drive og gefa í til að komast upp.

En mér dettur ekki í hug að kvarta undan snjónum.

Annars ætlaði ég að fara að sofa snemma í gærkvöldi sem og ég gerði. En mér leið samt eins og undinni tusku þegar ég vaknaði, mig dreymdi nefnilega snáka í alla nótt. Ég las mér til um hvað það gæti hugsanlega táknað. Hugnaðist illa fraudíska skýringin þó svo hún útskýri vel af hverju ég var þreytt.

Læt það svo fylgja í lokin að ég er alls ekki með á nótunum og áttaði mig bara ekki á því að þeir hefðu ákveðið að hafa Gettu Betur á laugardegi. Öðruvísi mér áður brá.

Auglýsingar

Nýja árið og smá kattarfár

Gleðilegt nýtt ár til ykkar sem kynnu að lesa þetta blogg. Árið 2009 ætlar að byrja með látum hjá mér því nú er skollin á prófatíð í MA og mikið stuð varðandi prófasamningu, yfirsetur og svo þarf maður víst að fara yfir einhver próf líka.

Ég var í minni fyrstu yfirsetu í dag og það gekk nokkuð áfallalaust þó svo blessaðir nemendurnir gerðu tilraunir til að spyrja mig um spurningar á prófinu sem var nota bene efnafræðipróf. Allt er hey í harðindum segi ég.

Hátíðarnar voru mjög indælar en það var eiginlega gott að komast aftur í vinnuna þrátt fyrir að ég gæti alveg hugsað mér að halda áfram að sofa út og svona.

Hérna eru tvö myndbandsbrot af því sem ég tók mér fyrir hendur um hátíðarnar.

Myndband 1

Myndband 2

(Þetta er Gandalfur, kettlingurinn hennar Ásu vinkonu minnar og það er ég sem er atast þarna í greyinu).

Það er gott að fá mömmu sína

Mamma gamla kom til mín á laugardaginn svona rétt þegar ég hafði lokið við að troða mig út eins  og grís á jólahlaðborði starfmannafélags Menntaskólans á Akureyri.

Hún skildi nú ekkert í því hvað ég hefði verið að tala um að fá hana til að þrífa og svona þar sem henni fannst allt spikk og span hjá mér. Ég sem skúraði bara smá kvöldið áður en hún kom. En hún straujaði fyrir mig sem var æði.

Við fórum í leikhús á laugardaginn og sáum Músagildruna sem var fínt. Verð að fara meira í leikhús hérna á Akureyri. Svo á sunnudeginum eyddum við smá pening og skoðuðum okkur um í búðum á Akureyri. Við gerðumst líka menningalegar og komum við á listasafni Akureyrar. Fórum svo í Jólagarðinn sem var ansi troðinn af fólki en enduðum svo að troða okkur út af kökum á kaffihlaðborði í Kaffi Vin sem er við Hrafnagil.

Ég þurfti nú eitthvað að þykjast að vinna í gærkvöldi svo við héldum okkur heima og svo var mamma bara að dingla sér hérna hjá mér í dag á meðan ég var að kenna. Ég kom heim í þennan fína hádegismat og leyfði mér meira að segja að fá mér kríu svona út af því að ég gat verið viss um að móðir mín myndi nú pikka í mig ef ég væri líkleg til að sofa yfir mig. Svo þegar ég var búin að kenna, kom ég heim og við fórum aðeins í bæinn. Svona til þess að hún gæti eytt pening í myndlist. Fékk hana til að kaupa ofsalega fallegt grafíkverk eftir Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur.

Þá var haldið heim á leið til fá sér í gogginn áður en ég myndi senda kellu til Reykjavíkur aftur. Þangað er hún víst komin heil og höldnu og innan við tvær vikur þangað til að ég sé hana aftur þegar ég fer til Reykjavíkur í jólafríinu.

Ég er farin að telja niður þó svo ég eigi eftir að gera svo ótal margt. Klára að fara yfir ritgerðir og kaupa jólagjafir og svona. Gef öllum bara í sund á Akureyri og gjafakort upp á ís í Brynju. Þá hlýtur að verða stöðugur straumur af fólki hingað.

Stöðugreining

Það er orðið ansi langt síðan að ég uppfærði hérna. Ég ber því við að ég er búin að vera hryllilega upptekin við hluti sem eru ekki í frásögur færandi.

Það er búið að vera nóg af snjó hérna á Akureyri þó svo að hann hafi stundum tekið upp – svona inn á milli. En ég hef svo sem varla gefið því gaum nema þau fáu skipti sem ég hef ætlað að nota bílinn og þurft að skafa af honum. Ég er bara búin að vera hræðilega upptekin í vinnunni. Jafnvel þegar ég fékk frí um daginn og skrapp til Reykjavíkur, þá var ég upptekin þar líka. Ég varð bara vinsælasta manneskjan í heiminum og hitti stóran hluta af vinum mínum. Það var nú reyndar voðaljúft.

Núna situr maður með sveittan skallann og fer yfir ritgerðir hjá krökkunum sem eru hjá mér í menningarsögu. U.þ.b. hálfnuð með þau sem vonandi þýðir það að ég get hent í þau ritgerðnum fyrir jól.

Svo ætlar mamma gamla að heiðra mig með nærveru sinni um helgina og þrífa og taka til.

Ég þyrfti nú að verða mér út i um jólaskraut. Svona til að lífga upp á pleisið.

Nýju skemmtistaðirnir mínir

Hér er ég og held bara áfram að kenna menntskælingum sögu þrátt fyrir að það virðist að við eigum eftir að enda aftur á járnöld. Ég segi ekki steinöld því við hljótum að finna leiðir til að brúka málminn í öllum bílunum sem við eigum ekki eftir að geta notað þegar við erum búin með olíubrigðirnar.

Allt í lagt. Þetta er kannski ekki tíminn fyrir svona gálgahúmor.

Það er hressandi að sitja í „leðrinu“ í löngu frímínútum. „Leðrið“ er partur af kennarastofunni hérna í MA og svolítið stássstofuleg með Kjarval, Jón Þorleifs og Gunnlaug Blöndal á veggjunum og þetta fína græna betrekk á veggjunum. Pólítíkin er rædd þar í löngu frímínútum og að menntamannasið þá er þarna vinstri-sinnað fólk með þvottekta skoðanir á málunum. Það eru líka góðar umræður hinu megin við þilið í því sem ég held að heiti græna herbergið en þar ber kennsluna og slíkt meira á góma. Svo er það kaffihornið okkar þarna Undir bláhimni (vinnustofan sem ég er á heitir þessu skemmtilega nafni) en þar er líka margt skrafað.

Ætli ég hnuskist út á morgun og fari og eyði peningum í kreppunni? Ég þarf nefnilega að kaupa straujárn.

Menntun er skemmtun

Ég get ekki kvartað undan því að hafa ekki nóg að gera en mér finnst þetta bara skemmtilegt. Ég er samt alls ekki búin að finna rétta jafnvægið. En maður er líka tiltölulega nýr í þessu þannig að það er viðbúið. Og það örlar alltaf svolítið á krökkunum, þetta eru klárir krakkar.

Um seinustu helgi fór ég í haustferð með starfmannafélaginu í Bárðardalinn þar sem skoðaðir voru fossar og fleira. Það var mjög gaman, þið getið kíkt á myndirnir á flickrinu.

Svo er ég að fara á ráðstefnu á morgun sem hefur yfirskriftina „Samræða skólastiganna“ eða eitthvað svoleiðis. Það er ansi þétt dagskrá svo ég vona að þetta verði allt mjög áhugavert. Maður skyldi ætla það með tilkomu nýju laganna fyrir öll skólastigin. Að koma því öllu í framkvæmd á eftir að verða áhugavert og ég held að ég verði ekki undanskilin í því öllu saman.

Enn á lífi

Ég vildi bara deila með ykkur að ég lifði af fyrsta kennsludaginn. Ég var alls enginn afburðakennari í dag og ég verð örugglega hundrað ár að læra nöfnin á öllum krökkunum eða kannski níutíu, eitt nafn á ári því að ég kenni níutíu krökkum. Fínir krakkar þó.

Það verða örugglega einhverjar sögur til segja frá seinna.

Vildi líka deila með ykkur þessu myndbandi eða auglýsingu réttara sagt. Ég held að ein af monsunum mínum sé ennþá til.

Previous Older Entries